Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar munu eftir helgi funda með lyfjafyrirtækinu Pfizer til að ræða kaup á meira bóluefni fyrir íslensku þjóðina. Þórólfur segist vera bjartsýnn á að viðræðurnar gangi vel, en skipulagning fyrir fundinn er komin vel á veg.
„Hann er bara á síðustu metrunum í skipulagningu. Ég vonast náttúrlega til þess að þetta beri árangur og hef ekki ástæðu til annars. Annars er þetta bara fyrsti formlegi fundurinn sem við höldum þannig að það verður að koma í ljós hvað mönnum finnst og hvað kemur út úr því,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Spurður hvort til greina komi að fara í álíka viðræður við önnur lyfjafyrirtæki, meðal annars Moderna sem hefur fengið markaðsleyfi í Bandaríkjunum en ekki Evrópu, segir Þórólfur:
„Það liggur fyrir samningur Íslands við Moderna, sá er einn af þeim samningum sem Ísland hefur gert til að tryggja eins vel og hægt er að við fáum bóluefni. Pfizer er eina bóluefnið sem er búið að fá markaðsleyfi í Evrópu og við getum ekki farið í viðræður við fyrirtæki um að fá hér lyf handa öllum sem ekki er búið að fá markaðsleyfi, ekki þá nema með þeim fyrirvara að við bíðum eftir markaðsleyfi. Það er kannski ekki ráðlegt að vera með svona viðræður við mjög marga. Ég held við ættum að reyna að einbeita okkur að Pfizer núna og hverju það skilar og sjá svo til.“
Gangi viðræður við Pfizer vel er mögulegt að hægt verði að bólusetja þjóðina fyrr en ella, en á móti fælist í þessu rannsóknarefni þar sem nánari upplýsingar myndu fást um þróun faraldursins eftir bólusetningu og með afléttingum samkomutakmarkana. Þá myndi einnig vera hægt að fylgjast nánar með mögulegum aukaverkunum.
„Þetta verkefni gengur í sjálfu sér ekki út á neitt nýtt nema það sem við erum að fara að gera hvort sem er,“ segir Þórólfur.
„Við erum að reyna að fá bóluefni handa sem flestum hér á landi og það gerum við alveg burtséð frá því hvort við köllum það rannsókn eða ekki rannsókn. Það eina sem breytir því að við köllum þetta fasa fjögur rannsókn er að þá fáum við bóluefni miklu fyrr og getum bólusett sem flesta á sem stystum tíma. Síðan höldum við bara áfram að fylgjast með verkuninni á bóluefninu sem við myndum gera hvort sem væri, fylgjast með aukaverkunum og öllu því sem tengist þessu. Við myndum bara gera það á aðeins staðlaðri máta svo menn gætu sett það upp sem ákveðnar niðurstöður. Það er í raun ekkert nýtt nema við erum að tala um að gera þetta hraðar og á staðlaðri máta en við hefðum annars gert,“ segir Þórólfur.
Spurður hvort þörf sé á að bólusetja þá einstaklinga sem þegar hafa greinst með Covid-19 segir Þórólfur það ekki vera forgangsmál.
„Við teljum ekki þörf á því að þeir sem hafa fengið staðfesta Covid-sýkingu þurfi bólusetningu. Allavega í byrjun erum við ekki að einbeita okkur að því að bólusetja þá einstaklinga, við teljum að það séu yfirgnæfandi líkur á því að þeir séu varðir.“
Þórólfur segir að til að hjarðónæmi myndist þurfi 60-70% þjóðarinnar að vera ónæm fyrir veirunni. Náist sá árangur með bólusetningu útilokar það þó ekki að sýkingar komi upp hjá þeim sem ekki eru bólusettir. Þórólfur segir ekki hægt að segja til um það hvenær svo stór hluti þjóðarinnar gæti fengið bólusetningu. Ísland hafi nú aðeins dreifingaráætlun á bóluefni Pfizer út marsmánuð.
Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tók gildi 10. desember 2020 og gildir til og með 12. janúar 2021. Þangað til mega einungis 10 koma saman, tveggja metra regla er í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að koma henni við.
Talsvert hefur verið fjallað um sóttvarnabrot Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra sem var viðstaddur listasýningu þar sem gestafjöldi var langt umfram samkomutakmarkanir.
Hafa í kjölfarið margir velt fyrir sér hegðun annarra ráðamanna, svo sem Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns í aðdraganda þess að hann sýktist af kórónuveirunni og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í heimsókn hennar og samstarfsmanna á Seyðisfjörð í kjölfar aurskriðna sem þar féllu fyrir skömmu.
Þórólfur segir reglur um sóttvarnir skýrar og að öllum beri að fylgja þeim.
„Það stendur mjög skýrt í leiðbeiningum okkar að grunnreglan er tveggja metra regla, sérstaklega þegar við erum að tala um ótengda aðila. Þegar ekki er hægt að viðhafa tveggja metra reglu eiga menn að nota grímu,“ segir Þórólfur.
„Þetta eru þær reglur sem eru í gildi en að öðru leyti get ég ekki haft neina skoðun á því hvað fólk gerir í einstaka tilvikum. Þá þarf maður að skoða bara hvort þetta séu tengdir aðilar og þá hversu mikið. Það væri svolítið langt gengið kannski að fara að kanna það.“