Kirkjan kjósi að standa varnarlaus

Sigmundur Davíð segir kirkjuyfirvöld leggja of mikla áherslu á almennar …
Sigmundur Davíð segir kirkjuyfirvöld leggja of mikla áherslu á almennar vinsældir, fremur en gildi kirkjunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og formaður Miðflokksins, gagnrýnir kristnu kirkjuna fyrir aðgerðaleysi í nýjum pistli sínum í dag og segir henni mistakast að verja kristna trú og „vestræn gildi“.

Pistillinn, sem birtist á miðlinum The Spectator í morgun, er harðorður í garð kirkjuyfirvalda, sem Sigmundur segir „þögul um þau atriði sem skipta máli“. Það sé allt of oft sem fólk sem standi utan kirkjunnar, í sumum tilfellum trúleysingjar og efahyggjumenn, sem verði að taka að sér að tala fyrir kristnum gildum. 

Hann segir að þetta muni verða kirkjunni til falls, og vísar þar í ört fækkandi hóp Íslendinga sem skráðir eru í þjóðkirkjuna; frá vel rúmlega 90% landsmanna fyrir nokkrum áratugum til tæplega 63% í ár.

„Margir kirkjuleiðtogar virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að besta svarið við þessu sé að reyna að þóknast þeim sem eru fjandsamlegir kristninni,“ segir Sigmundur, og vísar því næst til „róttækra fylkinga sósíalista og grænna hreyfinga“ sem dæmi um hópa sem kirkjan keppist við að þægja.

Minnir á trans-Jesú

Þá nefnir Sigmundur álitamál sem kom upp í haust þar sem þjóðkirkjan auglýsti sunnudagaskóla sinn með teiknaðri mynd af Jesú Kristi með brjóst og farða.

Því næst tekur Sigmundur ensku biskupakirkjuna fyrir, og gagnrýnir biskupa hennar fyrir að vera mótfallnir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þá hafi sumir þeirra stokkið á vinsældamál líðandi tíðar og m.a. fallið á kné til stuðnings Black Lives Matter-hreyfingunni, en yfirlýst stefnumál hreyfingarinnar séu m.a. þau að stuðla að „upplausn kjarnafjölskyldunnar“, að sögn Sigmundar.

Hann endar pistilinn á því að tengja velgengni kristna sálfræðingsins Jordans Petersons við möguleika kirkjunnar til vinsælda, og segir kristni hafa staðist tímans tönn með því að halda í sín grundvallargildi eftir fremsta megni og því eigi hún að halda áfram.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka