Málið er alvarlegt og mun hafa áhrif

Ólafur Þór Gunnarsson er til hægri á myndinni.
Ólafur Þór Gunnarsson er til hægri á myndinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er náttúrlega afar óheppilegt mál sem við þurfum að ræða innan okkar raða. Bæði þarf að fara yfir málið innan stjórnar og þingflokks,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is. Vísar hann þar til samkomu sem stöðvuð var á Þorláksmessu. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var viðstadd­ur sam­kvæmi á Þorláksmessu sem lög­regla stöðvaði vegna brota á sótt­varna­lög­um. Hefur Bjarni beðist afsökunar á atvikinu, en kvaðst þó ekki vera að íhuga að segja af sér. 

Óljóst með framhaldið

Aðspurður segir Ólafur að enn sé óljóst hversu mikil áhrif málið kann að hafa á samstarf ríkisstjórnarflokkanna. „Það er alls ekki hægt að halda því fram að þetta sé lítið mál. Þetta er alvarlegt mál sem mun hafa áhrif á samstarfið. Hvort það komi brestir í samstarfið er ekki hægt að segja til um.“

Að sögn Ólafs er nauðsynlegt að ræða málið nánar áður en næstu skref verða tekin. Hann geti ekki svarað því hvort samstarfinu verði slitið. „Ég geri ráð fyrir að þetta verði rætt í stjórn og þingflokki. Þar geta menn skoðað þetta frá öllum hliðum. Þetta verður því skoðað innan hópsins áður en menn komast að niðurstöðu.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka