Vill kalla saman þing fyrir áramót

Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar vill kalla þing saman.
Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar vill kalla þing saman. mbl.is/Arnþór

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir að Alþingi komi saman hinn 29. desember, í ljósi veru Bjarna Benediktssonar efnahags- og fjármálaráðherra í Ásmundarsal á Þorláksmessu. 

Vill hún að fram fari sérstök umræða við forsætisráðherra „um þá hættu sem skapast getur vegna hópamyndana um áramótin“, líkt og segir í fréttatilkynningu frá Samfylkingu. 

„Ástæða er til að ætla að skeytingarleysi fjármála- og efnahagsráðherra um sóttvarnareglur muni draga dilk á eftir sér og hafa þær afleiðingar að fleiri kjósi að virða sóttvarnareglur að vettugi,“ segir í tilkynningunni.

Oddný er ekki sú fyrsta sem óskar eftir því að Alþingi komi saman yfir hátíðarnar en Miðflokksmenn hafa þegar óskað eftir því til þess að ræða bóluefnamálin.

Píratar hafa þá gengið skrefinu lengra en Samfylking vegna veru ráðherra í Ásmundarsal og boðist til þess að styðja minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna ef stjórnarslit yrðu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur áherslu á að ríkisstjórnin haldi út kjörtímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert