Á annan tug þátta um refinn

Fallegir og forvitnir yrðlingar, nánast samlitir urðinni skammt frá greninu …
Fallegir og forvitnir yrðlingar, nánast samlitir urðinni skammt frá greninu í Hornvík. Ljósmynd//Ester Rut

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur fengið leyfi Umhverfisstofnunar til að gera heimildamynd um íslenska refinn í friðlandinu á Hornströndum. Einkum verður myndað í Hornvík og Hornbjargi af landi og með drónum. Leyfi er veitt gegn ákveðnum skilyrðum, en gert er ráð fyrir fimm manna teymi. Í því verður dr. Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, sem annast vísindalega leiðsögn. Ester Rut segir að stöðugur áhugi erlends kvikmyndagerðarfólks hafi verið á melrakkanum síðustu ár og fari hann vaxandi.

Ráðgert er að heimildamynd BBC verði tekin tekin upp í þremur áföngum og byrjað með tveggja vikna tímabili frá 12. mars til 12. apríl, síðan yfir hásumarið og tökum á að ljúka í september. Byrjað verði á tökum yfir mökunartímann og fylgst með lífsbaráttu refsins, fæðuöflun og hvort fæðan hafi breyst samfara loftslagsbreytingum. Næst verður fylgst með yrðlingunum þegar þeir fara á kreik og loks um haustið þegar þeir fara að bera sig að við fæðuöflun og undirbúa veturinn.

Drónamyndir verða teknar áður en fuglinn sest upp í björgunum og eftir að hann fer. Um er að ræða þáttaröð um rándýr á Norðurslóðum.

Ester Rut hefur verið tíður gestur í friðlandinu síðustu ár, …
Ester Rut hefur verið tíður gestur í friðlandinu síðustu ár, ýmist til að rannsaka refinn eða með erlendur kvikmyndagerðarfólki. Ljósmynd/Cristian Gallo

Allir vilja fá nýja sögu

Ester segir að hún hafi undanfarna mánuði verið með á sínu borði umsóknir og fyrirspurnir frá fjórum fyrirtækjum sem vilji kvikmynda refinn og náttúrulífið á Hornströndum. Nú sé útlit fyrir að tvö þeirra fái leyfi til að mynda refinn í sumar, en koma verði í ljós hvort kórónufaraldurinn setji strik í reikninginn.

Ester segir að síðasta áratuginn hafi á annan tug heimildamynda og þátta verið gerðar um líf íslenska refsins á Hornströndum. Flestar þeirra séu vandaðar, hafi verið sýndar víða og vakið athygli. Undanfarið hafi verið sýndir þættir undir heitinu „Stormborn“ m.a. í Skotlandi og Noregi og þar sé þáttur íslenska refsins mjög sterkur.

Ester Rut segir að erlenda kvikmyndafólkið spyrji gjarnan sömu spurninganna og allir vilji fá nýja sögu, sem ekki hafi verið notuð áður. Það geti verið snúið, en hins vegar fari refurinn oft út fyrir handritið og vanir kvikmyndagerðarmenn séu þá fljótir að nýta sér þá þræði. Flestar myndanna byggi á því að fylgjast með lífsbaráttu refsins í eitt ár við oft óvægin skilyrði á Hornströndum.

Fylgst með Ester frá 2009

Sjálf hefur Ester Rut nokkuð verið í sviðsljósinu. Þannig hefur þýskur kvikmyndagerðarmaður líka beint myndavélinni að því fólki sem umgengst og rannsakar tilteknar tegundir. Hann hafi m.a. fylgst með vinnu Esterar með refnum frá 2009 og safnað efni sem hún reiknar með að verði tilbúið fljótlega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert