Bóluefnið kemur til landsins fyrir hádegi

Bóluefnið kemur til landsins í dag.
Bóluefnið kemur til landsins í dag. Ljósmynd/Pfizer

Tíu þúsund skammtar af bóluefni lyfjafyrirtækisins Pfizer koma til landsins í dag. Tekið verður á móti efninu í höfuðstöðvum dreifingarfyrirtækisins í Distica í Garðabæ klukkan 10.30 og verða heilbrigðisráðherra og þríeyki almannavarna viðstödd.

Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, segir að verkefnið sé ótvírætt það stærsta sem fyrirtækið hefur komið að. Efnið kemur frá Amsterdam með flugi og er því haldið í 80 gráða frosti með þurrís.

„Þegar efnið kemur til Distica þá getum við bæði bætt þurrís á flutningsumbúðirnar en einnig erum við með frysti sem heldur efninu í mínus 80 gráðum,“ segir Júlía. Áður en bóluefninu er keyrt út þarf að fara yfir flutningsferlið og hitastigið í flutningnum en sérstakir hitasíritar fylgjast með hitastigi efnisins meðan á flutningnum stendur. Það er í höndum Pfizer að gefa lokamat á að flutningurinn til Íslands hafi verið í lagi, og að svo búnu er hægt að keyra helming efnisins út, eða 5.000 skammta en hinir 5.000 skammtarnir verða geymdir fyrir síðari bólusetningu.

„Það eru allir á tánum þannig að við gerum ekki ráð fyrir að þetta taki langan tíma,“ segir Júlía, en bólusetning hefst svo á morgun.

Um 700 starfsmenn á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem einkum hafa sinnt Covid-sjúklingum, verða meðal þeirra fyrstu til að fá bólusetningu en einnig starfsfólk sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hringinn í kringum landið. Fyrstu bólusetningarnar verða á morgun, en ekki hefur verið gefið út hver mun fyrstur fá bóluefnið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert