Hví ætti Pfizer að hleypa okkur á undan?

00:00
00:00

Viðræður sótt­varna­lækn­is og Kára Stef­áns­son­ar, for­stjóra Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, við lyfja­fyr­ir­tækið Pfizer hefjast í vik­unni. Þeir fé­lag­ar munu þar reyna að fá stjórn­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins til að flýta af­hend­ingaráætl­un fyr­ir Ísland svo að bólu­setja megi allt sam­fé­lagið á stutt­um tíma og ná hér hjarðónæmi. 

Þótt Íslend­ing­ar hafi þegar tryggt sér 170.000 skammta af bólu­efni Pfizers er að óbreyttu nokk­ur bið eft­ir að það komi allt til lands­ins, en aðeins er von á 3-4.000 skömmt­um af bólu­efn­inu í hverri viku út mars. Ekk­ert ligg­ur fyr­ir um af­hend­ingu eft­ir þann tíma.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir að viðræðurn­ar séu ekki hafn­ar en þær muni hefjast í vik­unni. Hug­mynd­in sé ekki endi­lega að fá að kaupa meira bólu­efni held­ur fá það af­hent fyrr til ákveðinna rann­sókna.

Tekið á móti 10.000 skömmtum af bóluefninu. Að óbreyttu munu …
Tekið á móti 10.000 skömmt­um af bólu­efn­inu. Að óbreyttu munu 3-4.000 skammt­ar koma hingað til lands í viku hverri út mars. Von­ir standa til að hægt verði að fá flýta af­hend­ingu. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Bólu­efni Pfizer er senni­lega með eft­ir­sótt­ustu vör­um á jarðkringl­unni um þess­ar mund­ir og ljóst að eft­ir­spurn er marg­föld á við fram­boð. En hvers vegna ætti Pfizer að hafa áhuga á því að senda meira bólu­efni hingað frek­ar en annað?

„Ég held að svona fasa-4-rann­sókn, eft­ir að bólu­efni er komið á markað, svari mjög mörg­um nauðsyn­leg­um spurn­ing­um sem eru mjög verðmæt­ar fyr­ir fyr­ir­tækið og mörg lönd sem eru að bólu­setja,“ seg­ir Þórólf­ur.

  • Hvað þarf til að ná hjarðónæmi?
  • Virk­ar bólu­efnið vel gegn mis­mun­andi stofn­um af veirunni?
  • Hvað myndi ger­ast ef aðgerðum væri aflétt á landa­mær­um eft­ir að hjarðónæmi er náð?
  • Hverj­ar eru auka­verk­an­irn­ar í sam­fé­lagi af því að bólu­setja svo marga?

Þetta er meðal þeirra spurn­inga sem Þórólf­ur tel­ur að væri hægt að svara með fjölda­bólu­setn­ing­um hér á landi, og þær myndu reyn­ast verðmæt­ar ekki aðeins fyr­ir fyr­ir­tækið held­ur heim­inn all­an.

Tel­ur Þórólf­ur að Íslend­ing­ar séu í sterkri stöðu til að rann­saka þetta. „Við erum með mjög sterka innviði, við fylgj­umst með öll­um hlut­um í tengsl­um við þessa bólu­setn­ingu, við erum með mjög góða skrán­ingu og höld­um utan um all­ar nauðsyn­leg­ar upp­lýs­ing­ar um þá sem eru bólu­sett­ir og óbólu­sett­ir, far­ald­ur­inn og raðgrein­ingu. Það er eng­in þjóð sem raðgrein­ir eins mikið og við. Við höf­um alla burði til að gera þessa rann­sókn og svara þess­um mik­il­vægu spurn­ing­um,“ seg­ir Þórólf­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert