Það var mikið um dýrðir í höfuðstöðvum dreifingarfyrirtækisins Distica í Garðabæ þegar bóluefni lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech gegn kórónuveirunni kom í hús í morgun.
Þríeyki almannavarna og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra voru meðal viðstaddra þegar ekið var með kassana inn í vöruskemmu fyrirtækisins undir vökulum augum vopnaðra sérsveitarmanna.
Bóluefnið lætur ekki mikið yfir sér. Tíu þúsund skammtar í tveimur litlum kössum. En þeir eru sögulegir, sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þegar hún ávarpaði samkomuna. Þeir væru til marks um það að bjartari tímar eru fram undan.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að dagurinn sé mikill ánægjudagur. „Það er alveg rétt að kassarnir láta ekki mikið yfir sér en innihaldið er þeim mun merkilegra og áhrifaríkara,“ segir hann. Nú sé hægt að hefjast handa og bólusetja viðkvæmustu hópana í samfélaginu.
Spurður hve marga þarf að bólusetja áður en hægt er að slaka á sóttvarnaaðgerðum, segir Þórólfur: „Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það, en það er eitt af því sem við höfum mikinn áhuga á að rannsaka og svara: hvað þarf að bólusetja marga til þess að ná þessu svokallaða hjarðónæmi.“
Hann segir að í upphafi verði einblínt á þá sem vitað er að séu viðkvæmastir fyrir Covid-sýkingu, og vonandi verði hægt að slaka á aðgerðum þegar sá hópur hefur verið bólusettur. Núgildandi reglugerð um samkomutakmarkanir fellur úr gildi 12. janúar og bindur Þórólfur vonir við að þá verði hægt að slaka nokkuð á takmörkunum.
Bóluefnið kom til landsins með flugi frá Amsterdam í morgun. Fyrirtækið Distica sér um hýsingu og dreifingu þess, en skammtarnir verða keyrðir út á hjúkrunarheimili og sjúkrastofnanir um allt land síðar í dag og á morgun.
Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, segir að verkefnið sé óvenjulegt. „Við höfum ekki áður dreift bóluefni við mínus 80 gráður þannig að þetta er alveg nýtt fyrir okkur.“
Hitastig bóluefnisins er vaktað með sérstökum síritum til að tryggja að það fari aldrei yfir kjörhitastig. „Við höfum fylgst með hitastiginu og þetta lítur bara vel út,“ segir Júlía. Starfsmenn Pfizer þurfi þó að lesa yfir gögnin og gefa grænt ljós áður en efnið fer í dreifingu.
Júlía segir að fyrirtækið taki dreifingu bóluefnisins mjög alvarlega og öryggi sé í fyrirrúmi. Því hafi efnið komið í lögreglufylgd.
Skammtarnir tíu þúsund sem nú eru komnir duga fyrir fimm þúsund manns, enda þarf hver og einn að fá tvær bólusetningar. Byrjað verður á að bólusetja framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustu sem vinna með Covid-sjúklingum og eru þar af leiðandi mest útsettir fyrir veirunni, auk elstu einstaklinga á hjúkrunar- og öldrunarheimilum. „Þannig munum við færa okkur niður aldurshópana.“
Um eitt þúsund þeirra sem bólusettir verða næstu daga eru heilbrigðisstarfsmenn, en afgangurinn íbúar hjúkrunar- og öldrunarheimila.