Niðurstaða rannsóknar vonandi snemma á næsta ári

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Sigurður Bogi

Vonast er til að niðurstöður rannsóknar embættis landlæknis á hópsmiti kórónuveiru, sem upp kom á Landakotsspítala í október síðastliðnum, liggi fyrir snemma á næsta ári. Þetta segir aðstoðarmaður landlæknis, Kjartan Hreinn Njálsson, í samtali við mbl.is

„Hópsmitið er enn til meðferðar hjá okkur og er í algjörum forgangi. Það er hins vegar mjög erfitt að segja til um nákvæmlega hvenær einhver niðurstaða muni liggja fyrir, við viljum síður gefa út einhverjar tímasetningar sem við getum síðan ekki staðið við. En það er vonast til að þetta mál verði klárað snemma á næsta ári.“

Hópsmitið sem upp kom á Landakoti í haust var það alvarlegasta það sem af er baráttunni við kórónuveiruna hérlendis. Tólf létust.

Um miðjan nóvember var svo gefin út bráðabirgðaskýrsla um hópsmitið og þar kom fram að ástandi húsnæðis spítalans hafi verið ábótavant og sömuleiðis að smit hafi komið inn á spítalann með fleiri en einni manneskju.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert