Þórólfur: Dagurinn í dag er gleðidagur

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var léttur í bragði þegar hann og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynntu um komu bóluefnis hingað til lands. Það var gert í húsakynnum Distica nú á ellefta tímanum, en Distica er dreifingaraðili bóluefnisins hér á landi.

„Dagurinn í dag er dagur góðra frétta og sennilega betri frétta en við höfum lengi heyrt, þannig að ég vil óska okkur öllum til hamingju með daginn. Ég vildi að við gætum séð brosin bakvið grímurnar, en ég get veit að það eru bros á vörum margra um land allt,“ segir Svandís sem fyrst tók til máls.

„Ég verð að segja það að ég er bara með fiðrildi í maganum yfir þessu, ég er svo spennt,“ sagði Svandís spurð að því hver fengi fyrstu bólusetninguna. Hún sagðist svo ekki vita nákvæmlega hver það yrði.

„Í dag er mikill gleðidagur í baráttunni við kórónuveiruna,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í upphafi sinnar ræðu. Hann minnti þó á að þrátt fyrir að nú væri bóluefni komið til landsins yrði enn að virða sóttvarnatakmarkanir sem í gildi eru.

Allt framlínustarfsfólk og íbúar hjúkrunarheimila bólusett

Það kom fram í máli heilbrigðisráðherra að bólusetja megi alla íbúa hjúkrunarheimila og allt framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu með þeim fimm þúsund skömmtum sem komu með flugi í dag til Keflavíkur. Nú er gert ráð fyrir að um 3-4 þúsund skammtar komi frá Pfizer á viku.

„Það sem við höfum í hendi er þetta: Við fáum 50 þúsund skammta frá Pfizer frá janúar til mars,“ sagði heilbrigðisráðherra.

„Samstöðu, samstarfi og alveg ótrúlegu úthaldi, þolgæði og bjartsýni má þakka þann árangur sem hér hefur náðst í ár. Megi þetta vera fyrirboði fyrir árið 2021,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert