Vonir standa til þess að þeir Seyðfirðingar sem hafa verið fjarri heimilum fái heimild til að fara heim í dag. Að sögn Tómasar Jóhannessonar, ofanflóðasérfræðings Veðurstofunnar, hefur verið stöðugleiki í jarðlögum í hlíðunum fyrir ofan byggð undanfarna daga. Fundað verður með Almannavörnum í dag með frekari afléttingu rýmingar í huga.
Um 100 Seyðfirðingar gátu ekki verið á heimilum sínum um jólin.
Mælingar Veðurstofunnar hafa ekki sýnt hreyfingu á jarðlögum undanfarna daga þrátt fyrir hlýindi á aðfangadag og jóladag og úrhelli í gær.
„Aðstæður verða metnar með tilliti til frekari afléttingar rýmingar í dag eftir að við höfum fengið mælingu á svokölluðum speglum sem meta hreyfingu á jarðlögum. Þeir hafa ekki sýnt neina hreyfingu undanfarna daga sem heitið getur. Þegar mæling dagsins liggur fyrir verður með Almannavörnum tekin ákvörðun um frekari afléttingu,“ segir Tómas.
Hann segir að vonir standi til þess að þeir sem ekki hafa komist heim hingað til komist heim í dag. „Við teljum að það sé ekki yfirvofandi hætta á skriðuföllum núna. Stöðugleikinn er að aukast á Seyðisfirði,“ segir Tómas.
Hann segir ennfremur að aðstæður verði kannaðar á vettvangi næstu daga til að sjá hvort menn sjái ummerki um hættu á frekari skriðuföllum nærri upptökum skriðnanna sem féllu.
Að sögn Tómasar voru m.a. þrír staðir skoðaðir sérstaklega í hlíðunum fyrir ofan Seyðisfjörð. Eru það staðir þar sem þekkt er að stærri skriður hafi fallið en þær sem féllu á byggð í Seyðisfirði.
„Fjórði staðurinn sem mikil skriðuhætta er á heitir Þófi og þar undir er SR mjöl (Síldarvinnslan). Þar virðist ekki hafa verið jafn mikil úrkoma og það rann ekki vatn úr efri hluta fjallsins, því það snjóaði þar efst í fjallinu. Því sköpuðust ekki jafn hættulegar aðstæður í Þófanum eins og í svokallaðri Botnabrún þar sem skriðurnar féllu,“ segir Tómas.
Hann segir dæmi um að skriður hafi fallið úr hlíðunum fyrir ofan Síldarvinnsluna þótt ekki sé talin hætta á því nú.