Starfsmannakostnaður fyrir klínískt starfsfólk er töluvert hærri á íslenskum sjúkrahúsum en á viðmiðunarsjúkrahúsum á Skáni í Svíþjóð. Þetta segir í skýrslu um aukna framleiðni og gæði heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneytið gaf út í október.
Í skýrslunni eru stærstu veitendur heilbrigðisþjónustu á Íslandi; Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, bornir saman við heilbrigðisþjónustu á Skáni í Svíþjóð, þar sem starfsemi þar er vel rekin og starfar á svipuðum grundvelli, að því er segir í skýrslunni.
Fram kemur að meðalstarfsmannakostnaður á hvern lækni sé um 50% hærri á Landspítala en á sjúkrahúsum á Skáni. Þó breytist dæmið þegar leiðrétt er fyrir miðgildi tekna í landinu, en þá kosta læknar „um 5-15% minna á Íslandi en á Skáni og hjúkrunarfræðingar á Landspítala kosta um 10% meira en á Skáni.“
„Hærri kostnaður við hjúkrunarfræðinga á Íslandi en á Skáni skýrist að hluta til af hærra hlutfalli viðbótargreiðslna fyrir yfirvinnu/vaktir. Þetta hlutfall nemur um 10-15% af greiðslunum á Íslandi samanborið við um 2% á Skáni,“ segir í skýrslunni. Kostnaðurinn skýrist að einhverju leyti af því að samkvæmt íslenskum kjarasamningum er hærra hlutfall vinnustunda greitt sem yfirvinna.
Þá hefur meðalkostnaður hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða aukist, það sé um 5,3% verðtryggð kostnaðaraukning á ári vegna hjúkrunarfræðinga á Landspítala og um 4,0% á ári á Sjúkrahúsinu á Akureyri á árunum 2015-2019.
Skýrslu heilbrigðisráðuneytisins má nálgast hér.