Hallfríður Nanna Franklínsdóttir, elsti Siglfirðingurinn og næstelsti Íslendingurinn, var bólusett í dag á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði.
Hún kveðst ánægð með bólusetninguna og starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar segir jákvætt að aldursforsetinn hafi ákveðið að láta bólusetja sig, það setji mikilvægt fordæmi.
Hallfríður Nanna er 104 ára og man tímana tvenna en hún ólst upp í torfbæ í Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu. Hallfríður ræddi við Morgunblaðið árið 2016 þegar hún náði þeim merkisáfanga að verða 100 ára.
Hallfríður Nanna þiggur alla jafna ekki inflúensubólusetningu en segist hafa áttað sig á því að þetta væri veiki sem þyrfti að láta bólusetja sig fyrir.