Hugmyndir um að hingað til lands komi nokkur hundruð þúsund skammtar af bóluefni Pfizer er nú á viðræðustigi. Málið er mjög viðkvæmt sem stendur, að því er heimildir Morgunblaðsins herma.
Sömuleiðis herma heimildir blaðsins að verið sé að falast eftir allt að 600 þúsund skömmtum. Ef af verður eru það nægilega margir skammtar til að bólusetja um 82% þjóðarinnar.
Fram til þessa hefur verið miðað við að bólusetja um 60% fullorðinna til að ná hjarðónæmi hér á landi. Hins vegar er viðbúið að spurn eftir bóluefninu verði umfram það. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins áttu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fund með aðilum frá Pfizer í gær.
Gera má ráð fyrir að annar fundur verði haldinn í vikunni. Hvorki náðist í Kára né Þórólf við vinnslu fréttarinnar. Eins og fyrr segir er málið á mjög viðkvæmu stigi, en óljóst er hvenær draga mun til tíðinda. Ef af verður er um tilraunaverkefni að ræða þar sem kannað er hvort hægt er að skapa nægilegt hjarðónæmi til þess að kveða niður kórónuveiruna hjá heilli þjóð á skömmum tíma. Aðspurð segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, að ekki verði vandamál að koma skömmtunum á rétta staði þrátt fyrir stóra sendingu. Hins vegar hafi enginn rætt við fyrirtækið um hvernig haga eigi dreifingu ef samningar um tilraunaverkefnið nást við Pfizer. Bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer var sem kunnugt er fyrst lyfjafyrirtækja til þess að fá bráðaleyfi til notkunar á bóluefninu, sem það þróaði í samstarfi við hið þýska BioNTech.
Bólusetning gegn kórónuveirunni hefst í dag. Klukkan 9:00 verða fyrstu skammtarnir veittir í húsakynnum landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Í hópi þeirra sem bólusettir verða eru fjórir heilbrigðisstarfsmenn úr fyrsta forgangshópi. Skammtarnir í fyrstu sendingu eru 12 þúsund talsins og duga því fyrir sex þúsund manns.
Ríflega sextugur íbúi á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð verður fyrstur utan heilbrigðisstéttarinnar til að verða sprautaður með bóluefni Pfizer. Maðurinn heitir Þorleifur Hauksson, en hann kvaðst í gær vera spenntur fyrir deginum. Í dag verður jafnframt farið á milli hjúkrunarheimila og heimilismenn bólusettir.