Birgir Svan Símonarson, kennari og rithöfundur, lést 25. desember síðastliðinn á líknardeild Landspítala í Kópavogi, 69 ára að aldri, eftir langa baráttu við krabbamein.
Birgir Svan fæddist 3. nóvember 1951. Foreldrar hans voru Elín Friðriksdóttir húsmóðir og verkakona og Símon Guðjónsson skipstjóri.
Birgir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974 og kennaraprófi frá KHÍ 1991. Hann stundaði sjómennsku um nokkurra ára skeið og starfaði við kennslu og uppeldisstörf við skóla og stofnanir víða um land. Hann var forstöðumaður sérskólans Hvammshúss í Kópavogi fyrir börn á aldrinum 14-16 ára frá árinu 2000 til 2011 og vann eftir það ýmis ráðgjafarstörf.
Birgir Svan gaf út yfir 20 ljóðabækur um ævina, þær fyrstu voru Nætursöltuð ljóð og Hraðfryst ljóð, sem komu út á árunum 1975-1976, og vöktu mikla athygli. Þóttu ljóð hans einkennandi fyrir þann stíl sem einkenndi ljóðskáldin á þessum tíma: í stað stuðla og höfuðstafa innihéldu ljóðin samfélagslega gagnrýni, óheflað tungutak og sterkt myndmál.
Birgir tilheyrði ýmsum skáldahópum á sínum ferli, þar á meðal Listaskáldunum vondu þar sem Megas, Steinunn Sigurðardóttir, Sigurður Pálsson, Birgir Svan og fleiri ferðuðust um landið og lásu ljóð. Ljóðaupplestur þeirra í Háskólabíói er líklega stærsti og frægasti ljóðaupplestur íslenskrar bókmenntasögu.
Birgir Svan sagði í samtali við Morgunblaðið þegar hann varð sextugur, að hann hefði verið óhræddur við að gera tilraunir við ljóðasmíðarnar.
„Ég hef dálítið litið á mig sem blaðamann í ljóðlistinni,“ sagði hann, „litið á ljóðlistina sem blaðamennsku frá greiningardeild tilfinninganna.“
Eiginkona Birgis Svans var Stefanía Erlingsdóttir, þau skildu. Synir þeirra eru Steinar Svan og Símon Örn.