Útlit er fyrir að innvegin mjólk til mjólkursamlaganna verði heldur minni í ár en var á síðasta ári. Heldur þróunin áfram en framleiðslan náði hámarki á árinu 2018.
Framleiðslan hefði að öllum líkindum minnkað meira ef bændur hefðu getað fækkað mjólkurkúm en vegna langra biðlista eftir slátrun sitja bændur lengur uppi með kýr og þær halda áfram að skila afurðum.
Innvigtun mjólkur eftir hverja kú jókst fyrstu mánuði ársins, að sögn Jóhönnu Hreinsdóttur, formanns stjórnar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM). Fyrstu sjö mánuðina voru greiddar 29 krónur á hvern lítra sem framleiddur var umfram greiðslumark en 1. ágúst var greiðslan lækkuð í 20 krónur. Við það minnkaði áhugi bænda á að framleiða mjólk á þessu verði og dró heldur úr framleiðslunni seinni hluta ársins.
Mjólkurkúm fækkaði um nærri því 100 á árinu. Jóhanna telur að þeim hefði fækkað meira ef bændur hefðu getað fengið gripunum slátrað þegar þeir vildu. Meðalframleiðsla á kú hefur aukist á hverju ári vegna kynbóta og róbótavæðingar fjósa en útlit er fyrir að hægt hafi á þróuninni í ár, af fyrrgreindum ástæðum.
Framleiðslan er meiri en sala á innanlandsmarkaði og yfir útgefnu heildargreiðslumarki sem landbúnaðarráðherra ákvað að hafa óbreytt á næsta ári, 145 milljónir lítra, að því er fram kemur í baksviðsgrein um ostaframleiðsluna í Morgunblaðinu í dag.