Íslenskt skyr beint í verslanir

Íseyjarskyr er nú selt í þúsundum verslana í Japan.
Íseyjarskyr er nú selt í þúsundum verslana í Japan.

Mjólkursamsalan og dótturfyrirtækið Ísey útflutningur ehf. hafa aukið áherslu á útflutning á skyri sem framleitt er hér á landi. Er það m.a. gert til að auka verðmæti mjólkurprótíns sem annars þyrfti að flytja út sem undanrennuduft á lágu verði og til að nýta tollfrjálsan kvóta fyrir skyr í löndum Evrópusambandsins.

Samstarfsfyrirtæki Íseyjar útflutnings í Danmörku framleiðir skyr sem selt er á helstu mörkuðum Evrópu. Þaðan kemur skyrið sem selt er í verslunum í Bretlandi en nú er verið að ljúka uppsetningu verksmiðju í Wales sem sinna mun þeim markaði.

Samhliða þessu hefur MS selt skyr frá Íslandi í Sviss og víðar. Nú hefur verið samið við tvær danskar verslanakeðjur, Meny og Spar, um að kaupa Íseyjarskyr beint frá Íslandi og Edeka-verslunarkeðjan í Bæjaralandi í Þýskalandi mun taka skyr frá Íslandi í sölu snemma á næsta ári.

Stefnir í að flutt verði út um 850 tonn af skyri frá Íslandi á þessu ári og stefnt að 1.400 tonna útflutningi á næsta ári, að því er fram kemur í umfjöllun um  útflutning á skyri í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert