Hefðbundin nýársmóttaka forseta Íslands, sem jafnan hefur verið á fyrsta degi ársins, fellur niður að þessu sinni vegna sóttvarnareglna. Aðrir atburðir á forsetasetrinu um áramótin verða skv. hefðum en þó með breyttum brag, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Ríkisráðsfundur verður á Bessastöðum á gamlársdagsmorgun, en í tilkynningu er fjölmiðlafólk beðið að virða sóttvarnareglur, fjarlægðarmörk og grímuskyldu. Ríkisráð er skipað ráðherrum og forseta Íslands sem jafnframt stýrir fundum þess. Í ráðinu eru lög og aðrar mikilvægar stjórnarráðstafnir bornar upp við forseta til staðfestingar.
Orðuveiting verður á Bessastöðum á nýársdag og hefst hún kl. 14:15. Reglur um sóttvarnir ráða því að sérstök athöfn verður fyrir hvern orðuþega og mun sá síðasti mæta kl. 17:30. Í kjölfarið verður listi yfir fólkið sem sæmt er fálkaorðu birtur á vef forsetaembættisins.
Löng hefð er fyrir því að heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu séu veitt á nýársdag og á þjóðhátíðardaginn ár hvert. Orður fær fólk sem sinnt hefur mikilvægum verkefnum í þágu samfélagsins, síðast fjórtán manna hópur, svo sem þríeyki almannavarna. sbs@mbl.is