Íslenska ríkið skrifar undir nýja bóluefnasamninga

AFP

Samningur Íslands um bóluefni Moderna og viðbótarsamningur um bóluefni frá Pfizer voru undirritaðir í heilbrigðisráðuneytinu í dag. Samningurinn við Moderna tryggir Íslendingum 128.000 bóluefnaskammta og dugir fyrir 64.000 einstaklinga. Þetta er það sama og aðrar þjóðir í samstarfi Evrópuþjóða eiga rétt á sem hlutfall af mannfjölda.

Viðbótarsamningurinn við Pfizer kveður á um 80.000 bóluefnaskammta til viðbótar fyrri samningi, svo alls fáum við bóluefni sem dugir fyrir 125.000 einstaklinga frá Pfizer, að því er heilbrigðisráðuneytið greinir frá. 

Ásthildur Knútsdóttir staðgengill ráðuneytisstjóra undirritar samningana við Moderna og Pfizer.
Ásthildur Knútsdóttir staðgengill ráðuneytisstjóra undirritar samningana við Moderna og Pfizer. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Fasa III í prófunum á bóluefni Moderna er lokið en lyfið er ekki komið með markaðsleyfi. Gert er ráð fyrir að mat Lyfjastofnunar Evrópu liggi fyrir í kjölfar fundar sem haldinn verður snemma í janúar, en mat stofnunarinnar er forsenda markaðsleyfis. Moderna áætlar að geta hafið afhendingu bóluefna á fyrsta ársfjórðungi komandi árs,“ segir í tilkynningunni. 

Uppfært 14:30

Fréttatilkynning um undirritun samninga um bóluefni var ekki rétt varðandi efni frá Moderna. Samningurinn kveður á um 128.000 bóluefnaskammta sem dugir fyrir 64.000 einstaklinga. Hefur það verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert