Tekið er á veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í lögum um félagið, ekki í þjónustusamningi, að sögn Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.
Hún segir þó að við gerð nýs þjónustusamnings hafi ráðherra og útvarpsstjóri í fyrsta sinn gefið út yfirlýsingu um starfsemi Rúv á auglýsingamarkaði. Með því sé þessi þáttur betur skýrður en áður hafi verið gert.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag nefnir Lilja að í yfirlýsingunni felist ákveðnar væntingar um hegðun Rúv á auglýsingamarkaði. Segir að verðskrá Rúv og afsláttarkjör eigi að vera opinbert plagg sem birtist á vef þess. Tekur ráðherra fram að hún telji að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins hafi aldrei verið lægri að raungildi en nú stefni í.