Viðar Guðjónsson
Alls hafa borist 47 tilkynningar vegna tjóna á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðufalla. Þar af eru 16 tilkynningar vegna tjóns á innbúi en í heild er um að ræða tjón á 31 húseign. Altjón er á 10-12 húsum.
Þetta kemur fram hjá Huldu Ragnheiði Árnadóttur, framkvæmdastjóra Náttúruhamfaratryggingar. Segir hún að búast megi við fleiri tilkynningum áður en yfir lýkur.
„Sumt er sama húsið þar sem bæði er um að ræða tjón á húsi og innbúi,“ segir Hulda.
Hún segir að það hafi verið vitað að fleiri hús hafi verið skemmd heldur en kom fram fyrstu dagana eftir skriðuföllin. Í mörgum tilfellum er um að ræða vatnstjón sem fólk hefur eðli málsins samkvæmt ekki komist heim til þess að kanna nema á allra síðustu dögum í besta falli.
„Það er í raun ekki enn komið í ljós hvert umfangið er. Við reiknum með fleiri tilkynningum,“ segir Hulda í umfjöllun um þetta mál í Morgunbæaðinu í dag.