Magnús Björnsson, veitingamaður, lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 23. desember síðastliðinn.
Magnús fæddist á Hnúki í Klofningshreppi, Dalasýslu, 23. júní 1926. Foreldrar hans voru Björn Guðbrandsson verkstjóri og Unnur Sturlaugsdóttir húsmóðir. Hann var næstelstur sjö systkina.
Magnús, sem oftast var kallaður Maddi, flutti til Keflavíkur 1929 og ólst upp þar. Hann var frumkvöðull í veitingarekstri en árið 1957 stofnaði hann matstofuna og danshúsið Víkina í Keflavík ásamt Sturlaugi bróður sínum sem byggði húsið. Víkin var fyrsta kaffitería landsins og einnig vísir að fyrsta diskóteki landsins því á Víkurloftinu voru haldnir dansleikir fyrir unglinga þar sem margir kunnir hljómlistarmenn stigu sín fyrstu skref.
Árið 1966 stofnaði Magnús veitingastaðinn Askinn. Staðirnir urðu fljótt tveir og nutu þeir mikilla vinsælda vegna rétta sem taldir voru nýstárlegir á þeim tíma. Þar ber helst að nefna glóðarsteikt kryddlegið lambakjöt, hamborgara og kjúkling sem var borinn fram með frönskum kartöflum, hrásalati og kokteilsósu sem varð til á upphafsárum Asksins. Magnús, Valgerður og börnin þeirra, Birna og Valur, ráku Askinn í þrettán ár en þá voru báðir staðirnir seldir.
Leið þeirra hjóna lá þá á nýjar brautir og fluttust þau vestur um haf til Kaliforníu þar sem Magnús nam ljósmyndun og aðstoðaði Val son sinn við að koma á fót veitingastaðnum Valhalla sem Magnús tók síðan við þegar Valur lést af slysförum aðeins 31 árs gamall. Hjónin fluttust aftur heim 1982 en þegar heim var komið starfaði Magnús m.a. hjá Sævari Karli, stofnaði verðbréfasöluna Arð, flutti inn heilsuvörur, hélt úti vefsíðunni Gleðitíðindin og lagði stund á ljósmyndun.
Eiginkona Magnúsar var Valgerður Guðlaug Sigurðardóttir, hún lést árið 2005. Eftirlifandi dóttir þeirra er Unnur Birna en sonur þeirra, Sigurður Valur, lést árið 1981. Dóttir Magnúsar utan hjónabands er Unnur Louisa Thøgersen. Hann lætur eftir sig níu barnabörn og tíu barnabarnabörn.