Seldir voru hátt í 30 þúsund miðar á þrjá streymistónleika sem haldnir voru á vegum Senu Live. Tónleikarnir sem um ræðir eru jólatónleikar Bubba Morthens, Björgvins Halldórssonar og Jóhönnu Guðrúnar. Stærstir voru jólatónleikar Björgvins þar sem um 14 þúsund miðar seldust.
Á tónleika Bubba voru seldir um tíu þúsund miðar og hjá Jóhönnu voru þeir um tvö þúsund talsins. Þá hafa tónleikarnir verið leigðir nokkur hundruð sinnum yfir jólahátíðina.Að sögn Ísleifs Þórhallssonar, framkvæmdastjóra Senu Live, gekk sala á tónleikana mun betur en hann þorði að vona.
„Salan er miklu meiri en á venjulega tónleika. Nú er um að ræða heimili þannig að salan margfaldaðist. Í upphafi vissum við ekki hvernig fólk myndi taka í þetta en þetta fór langt fram úr björtustu vonum,“ segir Ísleifur, en ljóst er að tekjur af tónleikunum hlaupa á tugum milljóna króna.
Samkvæmt grófum útreikningum Morgunblaðsins eru heildartekjur af umræddum streymistónleikum tæplega hundrað milljónir króna. Aðspurður segir Ísleifur að tekjur af tónleikunum séu farnar að nálgast hefðbundið ár. „Miðaverðið er lægra en salan aftur á móti miklu meiri. Við vildum halda verðinu niðri og reyna þannig að selja meira en áður. Það tókst heldur betur og tekjurnar eru farnar að slaga í venjulegt ár.“
Að hans sögn myndi aldrei ganga að selja 14 þúsund miða á hefðbundna jólatónleika hjá Björgvini Halldórs. „Svona mikið magn af miðum þýðir að við þyrftum að leigja Eldborgarsal Hörpu tíu sinnum. Það myndi auðvitað aldrei ganga,“ segir Ísleifur og bætir við að framvegis verði boðið upp á streymi frá tónleikum. Það verði áfram gert eftir að faraldrinum lýkur.
„Þetta er búið að opna nýjar víddir fyrir okkur. Fólk er greinilega til í að sitja heima og kaupa miða á streymi. Við vorum að selja miða í 25 löndum þannig að við náum að selja miða ansi víða. Streymið verður klárlega áfram í boði eftir að allt fer á fullt. Það er komið til að vera þótt það komi auðvitað aldrei neitt í staðinn fyrir að sitja í salnum,“ segir Ísleifur.
Aðspurður segir hann að sökum um óvissu um tekjur af tónleikunum hafi verið samið við listamennina um bónusgreiðslur. Þannig fengu þeir hluta hefðbundinna launa en kaupauka í samræmi við sölu miða.
„Við vildum halda alvöru tónleika og gerðum Jólagesti Björgvins til dæmis í fullri stærð. Við ákváðum að kanna hvort tónlistarmennirnir í því tilviki væru til í að fara af stað með 50% af umsömdum launum, en vorum þess utan með bónuskerfi. Allir voru til í það og nú eru launin farin að slaga í laun fyrir tvenna tónleika í hefðbundnu árferði. Þau tóku áhættuna með okkur og njóta nú góðs af því.“