Vilja bíða eftir ESB

Bretar hafa þegar pantað 100 milljónir skammta af bóluefni AstraZeneca …
Bretar hafa þegar pantað 100 milljónir skammta af bóluefni AstraZeneca og Oxford. AFP

Bóluefni Oxford-AstraZeneca hlaut bráðaleyfi í Bretlandi í gær. Bresk stjórnvöld hafa pantað 100 milljónir skammta af bóluefninu, sem dugir til að bólusetja 50 milljónir manna, og munu bólusetningar með efninu hefjast 4. janúar. Það, ásamt pöntunum á bóluefni Pfizer-BioNTech, nægir til að bólusetja alla bresku þjóðina, að sögn Matt Hancock heilbrigðisráðherra.

Bóluefnið hefur ekki enn hlotið markaðsleyfi innan Evrópusambandsins, en Noel Wathion, yfirmaður hjá Lyfjastofnun Evrópu, sagði í fyrradag að AstraZeneca hefði ekki enn sótt um skilyrt markaðsleyfi í Evrópu og mætti telja ólíklegt að það fengist samþykkt í janúar.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið að hvert Evrópuríki hafi leyfi til að meta sjálft og gefa út svokallað bráðaleyfi á undanþágu og það hafi Bretar gert. Því væri hægt að veita slíkt bráðaleyfi á Íslandi áður en bóluefnið öðlast markaðsleyfi í Evrópu. Það hefur þó ekki komið til tals, hvorki hér á landi né í öðrum Evrópulöndum, að sögn Rúnu.

Spurð í Morgunblaðinu í dag hvers vegna Bretar fari þessa leið en ekki aðrir, segist Rúna ekki geta dæmt um það. „Bretar standa náttúrlega í miðjum faraldrinum og eru núna eftir morgundaginn [daginn í dag] farnir úr Evrópusambandinu svo hugsanlega er þetta tengt því. En þeim bráðliggur á að bólusetja, eins og fleirum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert