Ríkiskaup eru að gera markaðskönnun á snjallmenni eða spjallmenni til að útvega ríkisstofnunum sem óska eftir að fá aðstoð þannig tæknilausna til að svara fyrirspurnum almennings. Getur könnunin leitt til samninga við framleiðendur hugbúnaðar en það ræðst þó af þörfum ríkisstofnana.
Allmörg fyrirtæki erlendis nota snjallmenni við fyrsta stig svörunar í netspjalli. Einnig eru íslensk fyrirtæki byrjuð að nota hugbúnaðinn, meðal annars Þjóðskrá, en notendurnir átta sig ekki alltaf á því enda tekur starfsmaður af holdi og blóði við þegar snjallmennið ræður ekki við fyrirspurnina.
Björgvin Víkingsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir að nokkrar stofnanir hafi verið að spyrjast fyrir um þessa tækni. Ákveðið hafi verið að Ríkiskaup myndu afla sér grunnupplýsinga til að geta veitt þeim ráðgjöf. Til þess þurfi að fá yfirsýn yfir markaðinn, athuga hverjir eru að bjóða þessar lausnir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.