92% Íslendinga telja líklegt að þeir þiggi bólusetningu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Nær 92% Íslendinga segja líklegt að þeir þiggi bólusetningu gegn Covid-19, ríflega 5% segja það ólíklegt og um 3% segja það hvorki líklegt né ólíklegt. Í byrjun september sögðu níu af hverjum tíu það líklegt.

Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup. 

Þeim hefur fjölgað mikið sem segja öruggt að þeir þiggi bólusetningu, en nær 65% segja það öruggt nú miðað við tæplega 49% í haust.

Fólk yfir fertugu er líklegra til að þiggja bólusetningu en þeir sem yngri eru. Þeir sem kysu Framsóknarflokkinn, Pírata, Viðreisn eða Vinstri græn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að þiggja bólusetningu en þeir sem kysu aðra flokka.

Af þeim sem segja ekki líklegt að þeir þiggi bólusetningu segja flestir ástæðuna vera þá að þeir vilji bíða eftir að það verði komin meiri reynsla á bólusetninguna og mögulegar aukaverkanir hennar, eða sjö af hverjum tíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert