Rafmagnstruflanir á öllu Vesturlandi

Búið er að finna bilunina og eru starfsmenn RARIK því …
Búið er að finna bilunina og eru starfsmenn RARIK því að undirbúa viðgerðir.

Rafmagnstruflanir eru nú á öllu Vesturlandi og er verið að vinna í því að byggja kerfið aftur upp.

Þetta segir í tilkynningu frá RARIK, en fjöldinn allur af ábendingum barst fréttastofu um rafmagnsleysi á svæðinu.

Spennuhækkun á landskerfinu olli truflununum og vinna starfsmenn nú hörðum höndum að því að koma rafmagninu aftur í lag, segir sérfræðingur hjá RARIK í samtali við mbl.is.

Hann segist ekki geta sagt til um það hve lengi truflanirnar muni vara, en áhrif þeirra hafa fundist víða um Vesturlandið. 

Bilunin fundin

Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets segir RARIK þegar hafa fundið bilunina, og því sé nú verið að vinna að viðgerðum.

„Það er búið að vera rafmagnslaust að hluta á svæðinu, t.d. á Snæfellsnesi, í Hrútatungu og á svæðum í Borgarfirði en mér skilst að rafmagnið sé að detta inn þessar mínúturnar,” segir Steinunn í samtali við mbl.is.

„Það var bilun á Vatnshamralínu 1 hjá okkur og hún olli þessum truflunum í dreifikerfinu. Í kjölfarið kom líka upp bilun á Hrútatungulínu og þess vegna var þetta svona víðtækt,” segir hún.

„En við erum búin að finna bilunina og við förum því núna í að gera við og vonandi verður ekki rafmagnslaust mjög lengi á svæðinu.”

Uppfært kl. 23:22: Rafmagn á Akranesi og í Hrútafirði er nú aftur komið inn. Snæfellsnes og Borgarfjörður eru enn úti.

Uppfært kl. 23:43: Borgarnes er nú komið með rafmagn aftur og truflunum á Snæfellsnesi fer alveg að ljúka. Mannskapur er kominn á vettvang bilunar og vinnur að viðgerðum, að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa Landsnets.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert