„Það eru auðvitað allir mjög miður sín. Stemningin er eiginlega bara óraunveruleg, ég hef ekki upplifað svona áður,“ segir Gréta Björk Guðmundsdóttir, íbúi í bænum Ask í Gjerdrum í Noregi, um jarðfall sem átti sér stað aðfaranótt miðvikudags.
Alls hafa nú líkamsleifar sex einstaklinga fundist í húsarústum í bænum, en líkur eru á því að fleiri kunni að finnast látnir. Að sögn Grétu versnar staðan eftir því sem tíminn líður. „Stemningin verður sorglegri með hverri mínútunni sem líður. Það eru fleiri manneskjur að finnast látnar. Við erum fegin að fólk sé að finnast en það er hræðilegt að enginn finnist á lífi.“
Í bænum búa um sjö þúsund einstaklingar, en alls hafa um þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín. Er þar um að ræða hús sem staðsett eru við jarðfallið, eða í um eins kílómetra radíus frá því. Spurð hvort hætta hafi verið á því að hús Grétu yrði fyrir jarðfallinu segir hún svo ekki vera.
Hún búi þó mjög skammt frá skriðunni. „Skriðan er í miðbænum í dal. Við búum í fjallshlíð sem er í framhaldi af þessum dal þannig að ef að ég labba út götuna þá sé ég beint niður á holuna í jörðinni. Við þurftum aftur á móti ekki að yfirgefa heimili okkar vegna þess að við búum á fjalli sem er stöðugur jarðvegur.“
Stór hluti svæðisins sem féll í jörðu var golfvöllur sem staðsettur er í miðbænum. Jarðfallið teygði sig þó einnig inn í íbúðahverfi. Að sögn Grétu er í raun ótrúlegt hvernig bærinn hefur gjörbreyst á örfáum dögum.
„Það er lögreglu- og björgunarfólk hérna, fréttamenn og hermenn á hverju götuhorni. Stemningin er mjög skrítin. Á áramótunum var engum flugeldum skotið upp af virðingu við þá sem var saknað og var allt þorpið ákveðið í því að engin ástæða væri til að fagna einu né neinu. Það var algjör kyrrð í bænum,“ segir Gréta sem þrátt fyrir áfallið kveðst munu búa áfram í Ask.