Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að Lyfjastofnun Íslands verði að svara því hvort unnt sé að fara aðrar leiðir að útgáfu markaðsleyfa hérlendis við bóluefni gegn kórónuveirunni en í samfloti við ESB eins og nú er.
Hann segist hins vegar ekki búast við því að hér á landi fyrirfinnist sú sérfræðiþekking sem til þarf að veita bóluefnum markaðsleyfi. Það sé gríðarlega flókið mál sem dýrkeypt væri að gera ekki með algjörri fullvissu um að bóluefni séu örugg.
„Það er kannski Lyfjastofnun sem þarf að svara því,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is, spurður hvort hann teldi ráðlegt að fara að fordæmi Breta sem samþykktu bóluefni frá Pfizer áður en Evrópska lyfjastofnunin gerði það.
„Til þess að gera það þyrftum við að fara yfir öll gögn alveg sjálf sem yrði gríðarlega mikið verk. Ég býst ekki við því að næg sérfræðiþekking sé til staðar hér á landi til þess að gera slíkt. Það væri ekki gaman ef upp kæmu síðan aukaverkanir sem mönnum hefur yfirsést,“ bætir Þórólfur við.
Í gær greindust aðeins fjögur smit innanlands en fjórtán alls á landamærum. Landamærasmitum hefur farið fjölgandi undanfarnar vikur og Þórólfur segist aðeins geta vonað að fyrirkomulagið á landamærunum haldi.
„Þetta er það sem við vissum að myndi gerast. Það er mikið af smiti í Evrópu. Margir sem eru að greinast á landamærum eru Íslendingar, þetta er fólk með íslenska kennitölu. Það eru auðvitað margir sem eru að snúa heim eftir ferðalög um áramótin. Þá er bara að vonast til að landamærafyrirkomulagið haldi. Ekki viljum við fá smit inn til landsins,“ segir Þórólfur spurður hvort ástæða sé til þess að fara í frekari varúðarstellingar á landamærum Íslands.
Þórólfur segist vona að smitum fari ekki að fjölga í kjölfar hátíðanna sem senn renna sitt skeið.
„Við erum búin að vera í þessari rússíbanareið síðan þetta byrjaði. Þýðir ekkert að vera svartsýnn eða bjartsýnn í þessum faraldri, það eina sem hægt er að gera er að skoða tölurnar og bregðast við þeim. Auðvitað vona ég að þetta verði ennþá lágt en við höfum ekki enn séð hvernig þetta verður í kjölfar aðventu og jólanna.
Ég veit ekki hvernig þetta skiptist,“ segir Þórólfur um þau smit sem greindust í gær og úr hvernig sýnatökum þau komu; landamæraskimun, einkennasýnatöku eða sóttkvíarsýnatöku. Það skýrist eftir helgi að hans sögn.