Geðgreining algeng á hjúkrunarheimilum

Um 70% íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum tekur geðlyf að staðaldri.
Um 70% íbúa á íslenskum hjúkrunarheimilum tekur geðlyf að staðaldri. AFP

Að meðaltali eru 60% íbúa á hjúkrunarheimilum á Íslandi með einhverja geðsjúkdómagreiningu. Þetta kemur fram í rannsókn sem var gerð hér á landi og samkvæmt henni tóku að meðaltali 69,6% íbúanna einhvers konar geðlyf að staðaldri. Fjallað er um rannsókn Páls Biering geðhjúkrunarfræðings og Ingibjargar Hjaltadóttur, sérfræðings í öldrunarhjúkrun, í Læknablaðinu

Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna mikla útbreiðslu geðræns vanda og geðlyfjanotkunar meðal aldraðra í þróuðum löndum, ekki síst meðal þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum. Þekkingu á geðrænum vanda og geðlyfjanotkun íbúa íslenskra hjúkrunarheimila er ábótavant, en mikilvæg fyrir stefnumótun í geðheilbrigðisþjónustu á heimilunum. Því var tilgangur rannsóknarinnar að kanna algengi geðsjúkdómsgreininga og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila, samspil þessara þátta og hvernig þeir hafa þróast frá 2003 til 2018.

Um helmingur íbúa með kvíða og eða þunglyndisgreiningu

„Á tímabilinu hafði um það bil helmingur íbúanna kvíða- og/eða þunglyndisgreiningu; 49,4% árið 2003, en 54,5% 2018. Þessi tíðni jókst til ársins 2010 er hún var 60,9%. Hún hefur síðan farið hægt minnkandi. Neysla geðlyfja jókst úr 66,3% í 72,5%. Þunglyndislyf eru algengust og jókst neysla þeirra úr 47,5% í 56,2. Neysla geðrofslyfja hefur haldist nær óbreytt, eða í kringum 26%. Nokkurt ósamræmi var á milli geðsjúkdómagreininga og geðlyfjanotkunar. Þannig fengu að meðaltali 18,2% geðlyf að staðaldri án þess að hafa greiningu og 22,3% tóku geðrofslyf í öðrum tilfellum en mælt er með,“ segir í grein þeirra Páls og Ingibjargar í Læknablaðinu. 

Viðkvæmir fyrir skaðlegum aukaverkunum

Aldursbreytingar hafa áhrif á verkun geðlyfja og rannsóknir hafa ekki staðfest jákvæða langtímaverkun þeirra fyrir aldraða. Þeir eru einnig viðkvæmir fyrir skaðlegum aukaverkunum lyfjanna sem aukast enn með fjöllyfjanotkun. Því er mikilvægt að geðlyfjanotkun aldraðra sé byggð á nákvæmri geðskoðun, segir í greininni. Eins er mikilvægt að þróa önnur úrræði til að efla geðheilsu íbúa íslenskra hjúkrunarheimila. 

Búast má við að geðheilsa eldri Íslendinga sé ekki stórlega verri en í öðrum Evrópulöndum. Því má draga þá ályktun að há tíðni geðraskana á íslenskum hjúkrunarheimilum stafi annaðhvort af versnandi geðheilsu við flutning á öldrunarheimili og þeirri skerðingu lífsgæða sem er aðdragandi þess, eða af ofgreiningu geðraskana, eða hvoru tveggja segja Páll og Ingibjörg í grein sinni í Læknablaðinu.

Notkun geðlyfja á íslenskum hjúkrunarheimilum er í hærri kantinum á …
Notkun geðlyfja á íslenskum hjúkrunarheimilum er í hærri kantinum á heimsvísu og jókst á tímabilinu sem rannsóknin náði til. AFP

„Á tímabilinu fékk tæpur fimmtungur íbúanna geðlyf að staðaldri án þess að fyrir lægi geðsjúkdómagreining og 8,6% var ekki ávísað geðlyfjum þrátt fyrir að hafa greiningu. Jafnframt fengu að meðaltali 17,3% kvíða- og/eða geðdeyfðarlyf án þess að fyrir lægi kvíða- eða þunglyndisgreining. Þessi hlutföll tóku tölfræðilega marktækum breytingum á tímabilinu, en voru nær þau sömu í upphafi og við lok þess.

Þetta bendir til að greiningar geðraskana séu ónákvæmar, hvort sem þær eru ofgreindar eða ekki. Í þessu samhengi ber einnig að hafa í huga að rannsóknargögnin veita ekki upplýsingar um greiningarskilmerkin að baki geðsjúkdómagreiningunum,“ segir í greininni.

Áhyggjur af óþarfa notkun geðlyfja

Ónákvæmar greiningar hafa ekki einar og sér bein áhrif á heilsufar, en geta komið í veg fyrir viðeigandi meðferð. Öðru gegnir um geðlyf og áhyggjur fara vaxandi af óþarfri og skaðlegri notkun þeirra meðal aldraðra.

Að meðaltali á tímabilinu tóku 69,6% íbúanna einhvers konar geðlyf og neyslan jókst úr 66,3% í 72,5%. Þá eru hvorki meðtalin svefnlyf né heldur þegar geðlyfjum var ávísað sjaldnar en alla daga vikunnar. Heldur dró úr neyslu róandi lyfja og kvíðalyfja en notkun þunglyndislyfja jókst töluvert. Hlutfall þeirra sem tóku lyf úr tveimur geðlyfjaflokkum breyttist nær ekkert og það sama á við um notkun geðrofslyfja.

Ýmis sálfélagsleg inngrip gagnast öldruðum og mörg meðferðarúrræði hafa verið …
Ýmis sálfélagsleg inngrip gagnast öldruðum og mörg meðferðarúrræði hafa verið þróuð til draga úr hegðunar- og geðrænum einkennum meðal fólks með heilabilun. AFP

„Samkvæmt kerfisbundinni samantekt á geðlyfjanotkun á hjúkrunarheimilum í 12 Evrópulöndum,er notkun geðrofslyfja á íslenskum hjúkrunar-heimilum svipuð og annars staðar í Evrópu. Aftur á móti er notkun þunglyndislyfja töluvert meiri á Íslandi, eða 52,3% samanborið við 40% í Evrópulöndunum.

Geðlyfja-notkunin var mismikil eftir löndum. Notkun geðrofslyfja er minnst á norskum og frönskum hjúkrunarheimilum (25%), en mest á austurrískum heimilum (45%). Notkun þunglyndislyfja var minnst á Ítalíu og í Þýskalandi (21%) en mest í Belgíu (48%), sem er minna en hér á landi (52,3%).

Munurinn á geðlyfjanotkuninni var enn meiri á milli einstakra hjúkrunarheimila en á milli landanna. Þannig var lægst tíðni notkunar geðrofslyfja 12%, en sú hæsta 59% og tíðni notkunar þunglyndislyfja var frá 19% til 68%. Höfundar telja að hugsanlegra skýringa á þessum mun sé ekki að leita í mismunandi samsetningu heimilisfólks heldur mismunandi nálgun við umönnun, fjárhagslegum þáttum og mismunandi afstöðu til ávísunar geðlyfja,“ segir ennfremur í grein Læknablaðsins.

Mikilvægt að draga úr notkun lyfjanna

„Notkun geðlyfja á íslenskum hjúkrunarheimilum er í hærri kantinum á heimsvísu og jókst á tímabilinu sem rannsóknin náði til. Þetta þarf að laga því óvíst er um árangur af geðlyfjanotkun aldraðra og aukaverkanir geta verið þeim skaðlegar. Eins eru sterkar vísbendingar um að þunglyndislyf vinni ekki gegn þunglyndiseinkennum fólks með heilabilun en 70% íbúa íslenskra hjúkrunarheimila hafa heilabilun á einhverju stigi.“

Ingibjörg og Páll segja að gæta þurfi meiri nákvæmni í greiningum á geðrænum vanda íbúa íslenskra hjúkrunarheimila með því að aðlaga greiningaraðferðir að þörfum þeirra. Sérstaklega þarf að hafa í huga að þunglyndiseinkenni, óróleiki og hegðunarvandi fólks með heilabilun getur stafað af líkamlegum óþægindum og sársauka.

Árangur af geðlyfjanotkun aldraðra er óviss og þau geta haft skaðleg áhrif. Því er mikilvægt að draga úr notkun þeirra. Mikil geðlyfjanotkun á öldrunarheimilum er hluti stærri vanda fjöllyfjanotkunar, sérstaklega þegar óæskilegar samlegðaraukaverkanir vega þyngra en ábatinn af einstaka lyfi. Ýmsar leiðbeiningar hafa verið þróaðar til að draga úr fjöllyfjanotkun aldraðra. Einnig hafa verið þróaðar árangursríkar leiðbeiningar til að draga úr geðlyfjanotkun á hjúkrunarheimilum.

Mikilvægt er að íslensk hjúkrunarheimili nýti sér slíkar leiðbeiningar. Einnig er þörf á að rannsaka hvaða þættir hafa áhrif á geðlyfjanotkun á íslenskum hjúkrunarheimilum því tíðni geðlyfjanotkunar, og því að líkindum ástæður hennar, er mismunandi eftir löndum og á milli hjúkrunarheimila innan hvers lands. Mikilvægt er að þekkja þá þætti sem stuðla að óþarfa geðlyfjanotkun til að unnt sé að draga úr henni.

Það krefst einstaklingsbundinnar nálgunar og varúðar að draga úr geðlyfjanotkun og gott er að bjóða upp á önnur meðferðarúrræði samhliða því og einnig til að fyrirbyggja óþarfa geðlyfjanotkun. Ýmis sálfélagsleg inngrip gagnast öldruðum og mörg meðferðarúrræði hafa verið þróuð til draga úr hegðunar- og geðrænum einkennum meðal fólks með heilabilun, meðal annars hreyfing, nudd-, ilm- og birtumeðferð og endurminninga-, tónlistar- og gæludýrameðferð. Árangur þessara úrræða er misvel studdur rannsóknum – sumar þeirra eru þó gagnreyndar – en þær eru skaðlausar og oft ódýrar í framkvæmd,“ segja þau Páll og Ingibjörg.

Greinin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert