Kársnesskóli í Kópavogi hefur verið jafnaður við jörðu. Ekkert er eftir af byggingu skólans, en ákvörðun var tekin um að rífa hann í kjölfar myglu sem þar kom upp. Verkið hefur gengið vel og er á áætlun. Þetta staðfestir Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla, í samtali við mbl.is.
Unnið er að byggingu nýs Kársnesskóla við Skólagerði, sem hýsa mun grunn- og leikskóla. 4,1 milljarði króna verður varið í þá framkvæmd á næstu fjórum árum, þar af milljarði á þessu ári. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar. Er þetta ein stærsta framkvæmd bæjarins á árinu.
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að verklok byggingarinnar verði í maí 2023, en nýr Kársnesskóli verður 5.750 fermetrar að flatarmáli. Þar til skólinn er risinn verða lausar skólastofur nærri Vallargerði nýttar fyrir starfsemi skólans, en þær hafa verið í notkun undanfarin ár.