Bann stjórnvalda við afhendingu plastburðarpoka í verslunum tók gildi nú um áramótin. Bannið nær bæði til hinna hefðbundnu plastburðarpoka sem og þunnu, glæru plastpokanna sem gjarnan má finna í ávaxta- og grænmetisdeildum verslana.
Áfram er þó leyfilegt að afhenda aðra poka en plastburðarpoka, en þeir verða þó að vera gjaldskyldir til þess að draga úr umhverfisáhrifum. Þá er enn heimilt selja plastpoka í rúllum í verslunum.
Á vef Stjórnarráðsins segir að plastpokabannið sé í samræmi við Evróputilskipun sem miðar að því að draga úr notkun einnota plastumbúða. Bannið er einnig afrakstur vinnu á samráðsvettvangi sem settur var á laggirnar 2018 og skilaði niðurstöðum sínum til umhverfisráðherra.