Sjálfboðaliðar frá samtökunum SEEDS á Íslandi tóku sig til og tíndu upp sprungna flugelda, grímur og sígarettustubba í miðborg og vesturbæ Reykjavíkur í gær.
„Það gekk mjög vel, okkur fannst vera minna flugeldarusl en í fyrra, en við söfnuðum miklu meira rusli þá,“ segir Oscar Uscategui, yfirmaður SEEDS á Íslandi, í samtali í Morgunblaðinu í dag. Þó hafi mikið drasl verið skilið eftir, sérstaklega leifar af flugeldakökum.
Um 25 manns frá samtökunum þrifu í þrjá klukkutíma í kringum Tjörnina og á Ægisíðu í gær. „Mögulega var minna skotið upp í ár,“ segir Oscar, en fyrir utan flugeldana hafi áberandi margar grímur legið á víðavangi. „Þær voru út um allt, í runnum, trjám og jafnvel í Tjörninni,“ segir hann.