Slit á skálakeðju ollu rafmagnsleysinu

Gömul slit eru talin hafa valdið rafmagnsleysinu.
Gömul slit eru talin hafa valdið rafmagnsleysinu.

Stein­unn Þor­steins­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Landsnets, segir að rekja megi rafmagnstruflanir á Vesturlandi í gær til slits í skálakeðju. Af þeim sökum sló rafmagni út í allt að fjórar klukkustundir á ákveðnum svæðum. 

Rafmagnslaust var að hluta á Snæfellsnesi, í Hrútatungu og á svæðum í Borgarfirði. Að sögn Steinunnar gekk þó vel að rafmagni inn að nýju. „Það slitnaði skálakeðja í Hrútatungulínu 1 sem kemur inn í tengivirkið okkar á Vatnshömrum. Í kjölfarið slær út í tengivirkinu. Þar sem mest lét var rafmagnsleysið í fjórar klukkustundir, en það var komið á flesta staði klukkan 2 í nótt.“

Rok á svæðinu í gær

Aðspurð segir Steinunn að ástæðan fyrir því að línan slitnaði séu gömul slit. „Þetta er gömul lína sem veður og vindar hafa barið á í gegnum tíðina. Í gær var rok á svæðinu, ekkert átakaveður, en það hefur verið nóg til að hún færi,“ segir Steinunn og bætir við að almennt sé farið í reglubundið eftirlit.

Þannig eigi línur ekki að slitna en þó sé ekki hægt að koma alfarið í veg fyrir slíkt. „Við sjáum stundum þessi slit fyrir og skiptum þá að sjálfsögðu út. Hins vegar eru þau ekki alltaf sýnileg og þá gerast hlutir eins og gerðust í gær.“

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert