Tilkynnt um tvö andlát í kjölfar bólusetningar

Tveir hafa látið lífið í kjölfar bólusetningar við Covid-19.
Tveir hafa látið lífið í kjölfar bólusetningar við Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lyfjastofnun hefur fengið tvær tilkynningar um dauðsföll sem urðu í kjölfar þess að einstaklingur fékk bóluefni við Covid-19. Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við mbl.is.

Báðir einstaklingar voru með undirliggjandi sjúkdóma og dvöldu á heilbrigðisstofnunum en þegar hafa 5.000 manns sem tilheyra viðkvæmasta forgangshópnum verið bólusettir.

Segir Rúna að tengsl dauðsfallanna við bóluefnið séu einungis tengsl við tíma, þ.e.a.s. tímann sem leið milli bólusetningarinnar og andlátanna.

„Okkur finnst mikilvægt að vekja athygli á því að nú hefur verið lokið við að bólusetja okkar elsta og viðkvæmasta hóp, um 5.000 manns. Það er mjög mikilvægt við bólusetningar að haldið sé utan um tilkynningar um aukaverkanir og við gerum það með því að taka við tilkynningum,“ segir hún. Lyfjastofnun setji reglulega inn upplýsingar á vefsíðu stofnunarinnar til þess að tryggja gott gagnsæi.

Alls hafa stofnuninni borist 12 tilkynningar um aukaverkanir og eru tvær þeirra tilkynningar um andlátin. Flestar aukaverkanirnar eru af hefðbundnum toga, þ.e.a.s. tilkynningar um einkenni á stungustað, höfuðverk, þreytu, ógleði og annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka