Öllum lyfjum fylgja aukaverkanir en með klínískum rannsóknum af ýmsu tagi er reynt að þekkja og skilja þær aukaverkanir sem fylgja hverju lyfi. Það er svo hlutverk lyfjastofnana sem veita leyfi að meta hvort verkun lyfsins sé að jafnaði meiri en hættan á hugsanlegri aukaverkun.
Þetta segir Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, í pistli sínum á Facebook um aukaverkanir lyfja og bóluefna.
Lyfjastofnun hefur verið tilkynnt um fimm alvarlegar aukaverkanir, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega kunna að tengjast bólusetningu við SARS-CoV-2-veirunni. Í öllum tilfellunum er um að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og sem búa á hjúkrunarheimilum.
„Það er ekki alltaf auðvelt að meta hugsanlegt orsakasamband milli lyfs og aukaverkunar. Ef ég fæ höfuðverk eftir töku á lyfi þá gæti það hæglega verið tilviljun, það gæti verið raunveruleg aukaverkun lyfs eða jafnvel svokölluð „placebo“-áhrif (stundum kölluð nocebo-áhrif þegar um er að ræða aukaverkun). Þegar við gerum klínískar lyfjatilraunir áður en lyf eru samþykkt þá er einmitt lagt mat á hugsanlegar aukaverkanir og þar er til dæmis borin saman tíðni hugsanlegra aukaverkana milli hópsins sem tekur nýja lyfið og hinna sem ekki taka lyfið,“ segir Magnús í pistli sínum.
„Eftir að lyf eru komin á markað er haldið áfram að rannsaka hugsanlegar aukaverkanir, til dæmis með skráningu þeirra hjá lyfjastofnun, með rannsóknum á gögnum í lyfjagagnagrunnum og með ýmsum öðrum leiðum. En við verðum að muna að það er erfitt að meta orsakasamband og því getur ómarkviss umræða og óskýr hugsun leitt til rangra ályktana,“ segir Magnús.
Magnús segir í sambandi við bólusetningu við kórónuveirunni að mikilvægt sé að hafa í huga að þeir einstaklingar sem látist hafa í kjölfar bólusetningar séu hrumir og flestir aldraðir.