Ekki mistök að greina frá andlátunum

Rúna Hauks­dótt­ir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofn­un­ar.
Rúna Hauks­dótt­ir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofn­un­ar. Ljósmynd/Almannavarnir

„Okkur ber skylda til að upplýsa sem við gerðum þegar við fengum fyrirspurnir fá fjölmiðlum. Ástæðan fyrir því að þetta er upplýst er að við viljum standa fyrir gagnsæi,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.  

Vísar hún til tilkynningar stofnunarinnar um að einstaklingar hefðu látist eftir bólusetningu við kórónuveirunni. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýndi Lyfjastofnun í morgun og sagði það óþarfi að upplýsa um andlátin. Litlar sem engar líkur séu á því að bólusetningin tengist andlátunum á nokkurn hátt. Aðspurð segir Rúna það ekki hafa verið mistök að upplýsa um stöðu mála. 

Nauðsynlegt að framkvæma athugun

„Við fengum tilkynningu um þetta frá læknum. Það er ekkert sem bendir til orsakasamhengis eins og við höfum sagt. Það er aftur á móti nauðsynlegt að láta framkvæma athugun,“ segir Rúna og bætir við að meðhöndla verði málið með réttum hætti.

„Það er engin ástæða til annars en að sýna gagnsæi í þessu máli. Okkur ber að meðhöndla þessar tilkynningar um mögulegar aukaverkanir, sem við munum gera.“

Lyfjastofnun sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að fimm hefðu fengið alvarlegar aukaverkanir. Þá hefðu fjórir látið lífið. Atvikin verða rannsökuð af óháðum aðilum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert