Fimm með alvarlegar aukaverkanir

Bólusetning er hafin hér á landi.
Bólusetning er hafin hér á landi. AFP

Lyfjastofnun hefur verið tilkynnt um fimm alvarlegar aukaverkanir, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega kunna að tengjast bólusetningu við SARS-CoV-2-veirunni. Í öllum tilfellunum er um að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og sem búa á hjúkrunarheimilum. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Lyfjastofnunar. 

Þar segir enn fremur að fengnir verði óháðir aðilar til að fara gaumgæfilega yfir þessi fimm alvarlegu atvik. Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að þessi alvarlegu atvik tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Eins og sakir standa bendir ekkert til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli.

Skoða hvort breyta þurfi nálgun

„Þess ber að geta að sá hópur sem bólusettur var með fyrstu sendingu bóluefnisins samanstendur af öldruðum og hrumum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum, öldrunardeildum eða eru í dagdvöl. Hafa ber í huga að að jafnaði látast 18 einstaklingar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á viku hverri,“ segir tilkynningunni. 

Þegar niðurstöður liggja fyrir verður skoðað hvort breyta þurfi nálgun að bólusetningum eldri einstaklinga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert