Hugbúnaðarfyrirtækið Prógramm ehf. hefur verið valið til að hanna svokallaða þingmannagátt fyrir Alþingi. Þingmannagátt er hluti af þróun stafrænnar þjónustu fyrir þingmenn þar sem öll gögn sem tengjast þingstörfum þeirra eru á einum stað.
Alþingi samþykkti í fyrra sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar var m.a. tilgreind þingmannagáttin og átti að verja 65 milljónum króna til verkefnisins.
Verkið var boðið út og tilboð opnuð í nóvember sl. Tilboð bárust frá Advania, Deloitte ehf., Origo, Parallel Ráðgjöf ehf. og Prógrammi ehf.
Ríkiskaup tilkynntu í lok síðasta árs að tilboð Prógramms hefði verið endanlega samþykkt og því kominn á bindandi samningur milli aðila.