„Það eru allir svolítið pirraðir og búnir að fá nóg,“ segir Halldór Gíslason, íbúi við Mánagötu á Akranesi, en húsið hans var þakið sementi í morgun eftir óhapp við umdeilda sementstanka. Hann á erfitt með að átta sig á tjóninu en óttast að þak sem hann var nýlega búinn að skipta um sé mikið skemmt.
Umfangsmikið hreinsunarstarf var í bænum í dag og má sjá myndir af því í myndskeiðinu ásamt viðtali við Halldór sem var svekktur eftir að hafa staðið í framkvæmdum við húsið í sumar. Hann segist vona að þetta verði til þess að starfseminni við höfnina verði hætt þar sem að hún eigi ekki heima nálægt byggð. Reynslan sýni að sementið sé mjög ætandi efni sem getið valdið miklum skaða þó í litlum mæli sé, en líklega er magnið sem fór í loftið í morgun talið í tonnum.