Andrés Magnússon Stefán Einar Stefánsson
Ætla má að búið verði að bólusetja 8,1% þjóðarinnar í lok fyrsta ársfjórðungs. Heilbrigðisráðuneytið segir að von sé á 5.000 bóluefnisskömmtum frá Moderna fyrir febrúarlok, en auk 10.000 skammta frá Pfizer í fyrra, er búist við 45.000 skömmtum öðrum til loka mars.
Ráðuneytið treystir sér hins vegar ekki til þess að greina frá frekari afhendingu bóluefnis, en vonar að hún verði örari er á líður.
Þessir 60 þúsund skammtar ættu að duga til þess að bólusetja 30 þúsund manns. Í landinu búa liðlega 368 þúsund manns, svo þar er um að ræða 8,1% Íslendinga.
Öll ríki í Evrópusamstarfi um bóluefnisinnkaup eiga að fá hlutfallslega jafnmikið og stýrist afhending og skammtafjöldi af því. Innkaup á bóluefni undir forystu Evrópusambandsins hafa sætt mikilli gagnrýni, þar sem stjórnmálaíhlutun, viðskiptasjónarmið og skriffinnska eru sögð hafa tafið ákaflega fyrir.
Miklu getur varðað hversu hratt og vel bólusetning gengur og ekki aðeins fyrir heilbrigði einstaklinga. Þannig gerir Alþjóðabankinn ráð fyrir því að vaxtarhorfur helmingist frá fyrra mati ef hökt verður á bólusetningu. Forystumenn í ferðaþjónustu segja þessa þróun ekki gefa tilefni til bjartsýni, sem hafi „beinar efnahagslegar afleiðingar“.
„Við erum nú í þeirri stöðu að geta ekki treyst því að bólusetning muni bjarga einhverju umfram það sem við áttum von á áður en bóluefnið fór að berast,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.