Mjög lasburða einstaklingar á sambýlum hafa verið bólusettir við Covid-19, að sögn sóttvarnalæknis. Í forgangsröðun heilbrigðisráðherra eru íbúar sambýla ekki nefndir. Engin bólusetning hefur farið fram á meðal langveikra einstaklinga sem búa í sjálfstæðri búsetu. Sóttvarnalæknir segir að alltaf verði eitthvert ójafnrétti í bólusetningu, ekki sé hægt að grandskoða hvert tilvik fyrir sig.
„Við lögðum áherslu á að bólusetja einstaklinga á hjúkrunar- og öldrunarheimilum. Svo voru mjög lasburða einstaklingar á sambýlum líka bólusettir. Þetta er fólkið sem er langlíklegast til að fara illa út úr þessari sýkingu og það er fólkið sem við viljum bólusetja, við viljum bólusetja einstaklinga sem eru eldri en 70 ára og fikra okkur þannig niður listann,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og bætir við:
„Af því að við fáum það lítið bóluefni í einu verða náttúrulega alltaf einhverjir út undan en við verðum bara að vinna það upp næst þegar við fáum bóluefni, öðruvísi er ekki hægt að gera þetta.“
Aðspurður segir Þórólfur að einstaklingar sem eru í sjálfstæðri búsetu og eru í áhættuhópi hafi ekki verið bólusettir. Þeir eru í sjöunda forgangshópi. Þórólfur segir að langveikir sem búa í sjálfstæðri búsetu séu væntanlega ekki eins veikir og þeir sem búa á stofnunum.
Hann telur að ekki sé óskýrt hvaða langveiku einstaklingar falli undir fólk í áhættuhópum. Það sé alveg á hreinu en verði betur skilgreint þegar röðin kemur að einstaklingum með langvinna sjúkdóma sem séu í sérstökum áhættuhópi.
„Við erum ekki komin inn í áhættuhópana. Þeir koma þegar við erum búin að klára aldurshópana, þá erum við væntanlega búin að ná mörgum af þessum áhættuhópum líka. Það eru einstaklingar sem eru með undirliggjandi hjarta og lungnasjúkdóma, einstaklingar með taugakerfissjúkdóma, eru lasburða og hreyfifærnin er stórlega skert. Það er alveg á hreinu, við erum bara ekki að gefa það út núna vegna þess að það er ekki komið að þeim hópum.“
Þeir sem eru með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkóma eru í mestri áhættu hvað Covid-19 varðar. Spurður hvort eitthvað verði forgangsraðað innan forgangshópsins segir Þórólfur:
„Það getur vel verið en auðvitað verður þetta alltaf ójafnt. Það er aldrei hægt að hafa það þannig að það sé skor fyrir hvern og einn einstakling, við þurfum bara að koma þessu bóluefni út af bestu getu og koma því til viðkvæmustu hópanna. Það er tilgangurinn með því.“