Sama á væntanlega við um börn

Kórónuveiran á sér ýmis afbrigði.
Kórónuveiran á sér ýmis afbrigði. Kateryna Kon/Science Photo Library

Ný afbrigði af kórónuveirunni sem greindust fyrst í Bretlandi og Suður-Afríku eru talin smitast hraðar en fyrri afbrigði veirunnar. Það er til rannsóknar og eins hvort börn smitist frekar af þeim en fyrri afbrigðum. Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Barnaspítala Hringsins, segir að ef ný afbrigði reynist smithæfari en fyrri afbrigði þá eigi það væntanlega líka við um börn. 

Morgunblaðið greindi frá því í dag að vísbendingar séu um að líklegra sé að börn smitist af nýjum stofni kórónuveirunnar en af fyrri afbrigðum. Þetta kemur fram í frétt danska blaðsins Børsen í gær þar sem vitnað er til Astrid Iversen, prófessors við Oxford-háskóla. Iversen segir að fram til þessa hafi börn á aldrinum 0-10 ára smitast minna en fullorðnir. Hún segir að þeir yngstu virðist berskjaldaðri nú en áður. Áhyggjur prófessorsins lúta ekki að veikindum barnanna sjálfra heldur því að þau geti aukið smithættu í samfélaginu. Það geti haft víðtækar afleiðingar í sambandi við umönnun og skólastarf. „Það er alvarlegt fyrir samfélagið ef ekki er hægt að hlúa að yngstu börnunum eða láta þau fara í skóla. Rannsókn á þessu er í forgangi núna,“ segir hún samkvæmt frétt Morgunblaðsins.

Valtýr Stefánsson Thors.
Valtýr Stefánsson Thors.

Töluvert var fjallað um áhrif nýrra afbrigða Covid-19 á börn í breskum og bandarískum fjölmiðlum fyrir jól og kom þar fram að ekki væri vitað með vissu hvort börn væru í meiri smithættu af þeim en öðrum afbrigðum en það væri rannsakað af vísindamönnum og allt kapp lagt á að vinna hratt. 

Umfjöllun BMJ

Reuters

BBC

Valtýr segir í samtali við mbl.is að það séu ákveðnar vísbendingar um að þessi nýju afbrigði séu meira smitandi almennt, það er smithæfni þessa stofna sé betri og eigi auðveldara með að berast á milli manna. Þetta sé aftur á móti ekki staðfest og margt annað sem getur haft áhrif á smithæfni á hverjum tíma segir Valtýr.

„En ef svo er þá á það væntanlega líka við um börn þó svo að börn séu almennt minna móttækileg fyrir sýkingum þá geta börn alveg smitast og smitað aðra,“ segir Valtýr.

Ekkert sem bendir til alvarlegri sýkinga

„Þetta þýðir aftur á móti ekki það að börn séu í meiri hættu og mikilvægt að það komi fram að þó að það séu ákveðnar vísbendingar um að smithæfnin sé meiri þá er ekkert sem bendir til þess að sýkingarnar séu alvarlegri, hvorki hjá börnum eða öðrum,“ bætir hann við. 

Miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi núna er ekki ástæða til þess að ætla að við þurfum að breyta afstöðu eða skipulagi í smitvörnum segir Valtýr. 

Börn geta smitast af Covid-19 eins og aðrir en yfirleitt …
Börn geta smitast af Covid-19 eins og aðrir en yfirleitt eru minni líkur á því. AFP

Jafnframt eru uppi vangaveltur um hvort þau bóluefni sem eru tilbúin duga á þessi stökkbreyttu afbrigði. Það er ekki vitað með fullri vissu enn þá. Ekkert frekar en margt annað varðandi þessu nýju afbrigði. Allt er þetta til rannsóknar en aðeins eru fáar vikur liðnar síðan þau greindust fyrst. Eins er ekki útilokað að önnur ný afbrigði eigi eftir að koma fram á sjónarsviðið á árinu.

Valtýr segir að vissulega sé mögulegt að veiran breyti sér. Ágætt dæmi um slíkt er inflúensan en hún breytist það mikið ár frá ári þannig að það þarf nýtt bóluefni á hverju ári. Hann segir að það sé fræðilegur möguleiki á að svo sé nú og mikilvægt að vísindamenn séu alltaf vakandi og velti fyrir sér öllum mögulegum hlutum. Í sjálfu sér eru þetta ekki það miklar breytingar á veirunni að fyrirfram má ætla að bóluefnið virki jafn vel á þetta segir Valtýr jafnframt.

Skólastarf er með eðlilegum hætti á Íslandi fyrir grunnskólanema en …
Skólastarf er með eðlilegum hætti á Íslandi fyrir grunnskólanema en alls eru 9 börn yngri en 18 ára með Covid-19 á Íslandi. AFP

Nýja afbrigðið B.1.1.7 greindist fyrst í suðausturhluta Englands í síðasta mánuði og nú hefur það að miklu leyti tekið yfir önnur afbrigði veirunnar í Englandi. Í ritinu SienceMag er haft eftir Jeremy Farrar, smitsjúkdómasérfræðingi sem stýrir Wellcome Trust, að hætta sé á nýrri alvarlegri bylgju ef þetta afbrigði verður ráðandi í heiminum. Bylgja sem gæti orðið erfitt að hafa stjórn á. 

Vegna þess hversu hratt afbrigðið hefur dreift sér hafa einhver ríki hraðað bólusetningaráformum og eins rætt um að breyta skammtastærðum til þess að hægt verði að verja fleiri fyrr. Vísindamenn hafa lagt til að stjórnvöld ríkja grípi til hertra sóttvarnaaðgerða og þegar hafa ýmis ríki brugðist við, svo sem Bretar, Þjóðverjar og Danir svo fáein séu nefnd. 

Emma Hodcroft, veirufræðingur við háskólann í Basel, segir að hún vonist til þess að stjórnvöld átti sig á því sem þau standa frammi fyrir fyrr en var fyrir ári síðan. Að grípa til aðgerða svo hægt sé að stöðva þetta afbrigði Covid-19.

Þegar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynnti hertar aðgerðir sagði hann að nýja afbrigðið væri 50-70% meira smitandi en önnur. Vísindamenn hafa aftur á móti farið varlegar í sakirnar og of snemmt sé að halda slíkum fullyrðingum fram. Til að mynda geta margt annað haft áhrif á fjölgun smita í Bretlandi. Svo sem hegðun fólks á aðventunni og um jólin. 

New York Times

NPR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert