80 einstaklingar bíða þess að komast af Landspítala og í önnur úrræði. Um 20 einstaklingar bíða á bráðamóttöku eftir því að komast á legudeildir, sumir þeirra þurfa að bíða í rúmum á göngum bráðamóttökunnar. Þetta segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga Landspítala í samtali við mbl.is.
„Það hefur verið töluverð aðsókn á bráðamóttökuna síðustu daga og á sama tíma hefur ekki náðst að útskrifa jafn marga af spítalanum eins og þyrfti að gera. Þetta leiðir þá af sér að það er vaxandi fjöldi sjúklinga sem bíða á bráðamóttökunni eftir innlögn. Þar með verða fleiri á bráðamóttökunni heldur en hún ræður við með góðu móti,“ segir Jón Magnús.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá er mikið álag á bráðamóttöku og Landspítala sem stendur. Fólki með vægari áverka og veikindi er því bent á að leita heldur til heilsugæslunnar eða læknavaktarinnar. Jón Magnús segir þó mikilvægt að taka fram að einstaklingar með mjög bráð einkenni, svo sem brjóstverki, andnauð eða grun um heilablóðfall ættu ekki að hika við að hringja í Neyðarlínuna í síma 112 og koma á bráðamóttöku.
Álagið á bráðamóttöku er sem stendur ekki tengt Covid-19. Álag er á spítalanum í heild sinni vegna útskriftarvanda spítalans.
„Á mánudaginn voru 80 einstaklingar á spítalanum sem hafa gilt færni- og heilsumat og eru að bíða eftir því að komast í önnur úrræði. Við höfum verið með um og yfir 20 einstaklinga sem bíða á bráðamóttökunni eftir að komast inn á legudeildir,“ segir Jón Magnús.
Eru stofur til staðar fyrir allt þetta fók á bráðamóttökunni?
„Sumir þeirra þurfa að bíða í rúmum á göngum bráðamóttökunnar en við reynum eftir fremsta megni að tryggja að þau fái pláss á stofum hjá okkur.“
Þeir sem þurfa á bráðaþjónustu að halda fá hana þó að sjálfsögðu strax, að sögn Jóns Magnúsar.
„Hjúkrunarfræðingur metur alla sem leita til okkar. Þeir sem þurfa að fá þjónustu strax fá hana en það eru þeir sem eru með vægari slys eða veikindi sem geta lent í aukinni bið undir þessum kringumstæðum. Það eru þeir einstaklingar sem við hvetjum til þess að nota bráðaþjónustu heilsugæslunnar eða læknavaktarinnar. Þá vinna heilsugæslan og læknavaktin með okkur í því að gera þessa forgangsröðun þannig að þeir vísa þá þeim áfram til okkar sem þurfa á bráðaþjónustu að halda en þjónusta þá sem þeir geta sinnt hjá sér,“ segir Jón Magnús.
Biðtíminn á bráðamóttökunni breytist hratt en þegar blaðamaður ræddi við Jón Magnús um klukkan þrjú í dag var sá lengsti um ein og hálf klukkustund.
„Það er töluvert um það að fólk leiti til okkar með vægari áverka og einhverjir sem leita til okkar með vægari veikindi sem heilsugæslan eða læknavaktin hefði líka getað sinnt. Um leið og þú snýrð á þér ökklann og átt erfitt með gang þá er það brátt mál sem á heima á bráðamóttöku. Það er hins vegar vægari áverki sem heilsugæslan gæti líka sinnt,“ útskýrir Jón Magnús og bætir við að lokum:
„Við viljum leggja áherslu á það að þeir sem eru með mjög bráð einkenni, brjóstverki, andnauð eða grun um heilablóðfall, þeir hiki ekki við að hringja í 112 og koma til okkar.“