Upplifa sig út undan í bólusetningarferlinu

„Ég merki það að það er komin veruleg þreyta í …
„Ég merki það að það er komin veruleg þreyta í fólk,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins. Myndin er tekin fyrir faraldur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hluti fatlaðs fólks sem býr í sjálfstæðri búsetu upplifir að það sé skilið eftir hvað varðar bólusetningu við Covid-19, að sögn formanns öryrkjabandalagsins. Hún segir öryrkja bíða bólusetningar með óþreyju enda komin mikil þreyta í hópinn vegna langvinnrar einangrunar á tímum Covid-19.

Einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi eru í sjöunda forgangshópi í bólusetningu. Á undan þeim eru heilbrigðisstarfsmenn, fólk sem býr á hjúkrunar- og dvalarheimilum, aldraðir og fleiri.

„Ég hef heyrt gagnrýniraddir hjá fötluðu fólki sem býr í sjálfstæðri búsetu og er útsett fyrir Covid. Því þykir það skilið eftir á meðan þeir sem búa á stofnunum fá bólusetningu,“  segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ). Hún tekur þó fram að gleðilegt sé að þeir sem búi á stofnunum fái bólusetningu snemma. 

Fólk orðið þreytt á ástandinu

Þuríður bendir á að ef fólk telur sig verða að fá bólusetningu við Covid-19 þá geti fólk sótt um undanþágu.

„En eins og þetta lítur út hérna þá eru einstaklingar með undirliggjandi og langvinna sjúkdóma sem eru í sérstökum áhættuhópi í forgangshópi númer sjö. Það er dálítið seint, á meðan einstaklingar sem dvelja á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa eru í hópi þrjú,“ segir Þuríður.

Hún telur að fólk í áhættuhópum bíði nú mjög óþreyjufullt eftir bólusetningu.

„Ég merki það að það er komin veruleg þreyta í fólk. Það er náttúrulega búið að vera í sjálfskipaðri sóttkví og einangrun og hefur dregið verulega úr því að hitta sitt nánasta fólk, jafnvel verið nánast eitt á jólum og yfir hátíðar. Það bíður í óþreyju og er orðið mjög þreytt á þessu ástandi,“ segir Þuríður.

Reiðast yfir reglubrotum

Öryrkjar sem eru í áhættuhópum eru gjarnan, að sögn Þuríðar, afar ósáttir við það þegar fólk fylgir ekki reglum.

„Það verður mjög reitt þegar það sér að einhversstaðar er verið að brjóta sóttvarnareglur af því að það er ekkert skemmtiefni að þurfa að vera í einangrun. Þetta hefur haft ýmsar afleiðingar fyrir fólk. Svo eru menn kvíðnir fyrir því að bóluefnið komi kannski ekki þannig að fólk er órólegt.“

Erfitt að fara aftur af stað

Fréttir af aukaverkunum sem mögulega geta tengst bólusetningu hafa gert suma tvístígandi um að fara í bólusetningu, sérstaklega eldra fólk, að sögn Þuríðar. Langflestir ætli sér þó að þiggja bólusetningu.

Þuríður segir aðspurð að það verði líklega „svolítill þröskuldur“ fyrir marga að byrja aftur að lifa eðlilegu lífi eftir þá miklu einangrun sem fólk í áhættuhópum þurfti að sæta vegna Covid.

„Sérstaklega fyrir fólk sem er komið inn í kvíða og depurð. Það getur verið erfitt að rífa sig upp úr því. Vonandi verður auðvelt fyrir flesta að fara aftur af stað út í samfélagið þegar þar að kemur. Auðvitað eru öryrkjar og fatlað fólk sá hópur sem hafa minnst tækifæri til þátttöku í samfélaginu svo það er mikilvægt að þessum einstaklingum verði mætt sem best.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert