Andlát: Jakob Magnússon fiskifræðingur

Jakob Magnússon, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Hafrannsóknastofnunar, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði á nýársdag, 94 ára að aldri.

Jakob var fæddur á Tálknafirði 26. júlí 1926 og voru foreldrar hans hjónin Björg Guðmundsdóttir (1885-1962) og Magnús Pétursson, bóndi og sjómaður (1884-1970). Jakob lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1948. Eftir það nam hann dýrafræði við Óslóarháskóla, fór svo til frekara náms í fiskifræði við háskólann í Kiel í Þýskalandi og lauk doktorsprófi þaðan árið 1955. Síðar átti Jakob svo eftir að taka þátt í ýmsum námskeiðum og rannsóknum víða um lönd, einkum á karfastofninum.

Á árunum 1955-1965 var Jakob fiskifræðingur hjá Atvinnudeild Háskóla Íslands. Var svo um fjögurra ára skeið starfandi á Fillipseyjum hjá FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, það er frá 1965-1969. Eftir það og til ársins 1971 var hann yfirfiskifræðingur hjá FAO í Mið-Ameríku. Talsvert löngu síðar fór Jakob svo tímabundið til starfa við þróunarhjálp á vegum Íslendinga á Grænhöfðaeyjum og síðar í Gíneu-Bissaú.

Árið 1971 kom Jakob til starfa hjá Hafrannsóknastofnun; var deildastjóri þar til 1978 og aðstoðarforstjóri eftir það til starfsloka árið 1996. Auk þessa gegndi Jakob margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum á sviði hafrannsókna og sjávarútvegsmála og skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit um málefni á vísindasviði sínu. Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fékk Jakob árið 1980.

Eftirlifandi eiginkona Jakobs er Vilhelmína Vilhelmsdóttir frá Þýskalandi, fædd árið 1929. Þau eiga þrjú börn; Vilhjálm, Sigríði og Klöru Björg. Barnabörnin eru sex talsins.

Útför Jakobs verður gerð frá Kópavogskirkju næstkomandi miðvikudag, 13. janúar, kl. 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert