Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir atvinnuleysi áfram munu verða mikið á fyrri hluta ársins, ef ferðaþjónustan kemst ekki í gang. Fyrir vikið muni dreifing bóluefnis hér á Íslandi hafa áhrif á atvinnustigið næstu mánuði.
Yngvi Harðarson hagfræðingur segir að ef væntingar almennings daprist vegna hægagangs við bólusetningu geti það dregið úr einkaneyslu og framkvæmdum í vor.
Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir erfiða stöðu í helstu viðskiptalöndum munu hafa áhrif á spurn eftir ferðalögum, óháð aðgerðum hér. Erfið staða í ferðaþjónustu muni ekki síst bitna á láglaunafólki.
„Þetta er allt saman uppskrift að áframhaldandi atvinnuleysi næstu mánuðina. Spurningin er hvort við náum innlendri þjónustu aftur í gang. Hvort við náum veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og menningarlífinu af stað þótt hér verði áfram takmarkanir fyrir ferðaþjónustuna,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.