Landsréttur hefur snúið úrskurði héraðsdóms við í máli Lárusar Sigurðar Lárussonar. Hann hafði áður verið talinn hafa brotið starfs- og trúnaðarskyldu sem skiptastjóri fasteignafélagsins Þórodds ehf. Var honum í kjölfarið vikið úr starfi skiptastjóra þrotabúsins.
Ástæða brottvikningarinnar var framferði hans í tengslum við sölu á verðmætustu eign búsins, fasteigninni Þóroddsstöðum sem stendur við Skógarhlíð 22 í Reykjavík. Var Lárus sagður hafa selt eignina á undirverði í gegnum fasteignasölu eiginmanns og samstarfsmanns hans, Sævars Þórs Jónssonar.
Þannig var Lárus sagður hafa tryggt að þóknun vegna sölu fasteignarinnar rynni til eiginmanns hans. Sölulaun eiginmannsins námu 2,5 prósentum af kaupverðinu sem eru hærri sölulaun en gengur og gerist og hálfu prósenti hærri en miðað er við í verðskrá fasteignasölu eiginmannsins.
Fyrir Landsrétti var lögð fram verðskrá fasteignasölunnar sem og samningur um söluþjónustuna og kemur fram í úrskurðinum að um hafi verið að ræða almenna sölu, en ekki einkasölu og hafi því 2,5 prósent verið samkvæmt verðskrá.
Í úrskurði Landsréttar kemur fram að ekki hafi þetta verið nægilegt efni til að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi skiptastjóra. Því hafi úrskurður héraðsdóms verið felldur úr gildi, en varnaraðilum var gert að greiða Lárusi 496 þúsund krónur í kærumálskostnað.