Útgáfa bólusetningarvottorða vegna Covid-19 er í vinnslu en ekki komin til framkvæmda, samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis.
Útgáfa vottorðanna verður líklega afgreidd með svipuðum hætti og útgáfa mótefnavottorða sem fólk getur sótt á vef Heilsuveru (heilsuvera.is). Skipulag í kringum vottorðin fer fram í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.
Á landamærum Íslands hefur verið hægt að framvísa vottorði um staðfesta Covid-19-sýkingu á Íslandi frá 10. desember 2020 og eins hafa verið tekin gild sambærileg vottorð frá löndum innan EES/EFTA-svæðisins. Vottorðið má vera á pappír eða á rafrænu formi, samkvæmt frétt á vef embættis landlæknis. Landamæraverðir meta hvort vottorðið er gilt og kalla til heilbrigðisstarfsmann ef þarf. Lokaákvörðun um gildi vottorðs er á ábyrgð sóttvarnalæknis.
Ef farþegi framvísar vottorði sem er ógilt skal hann sæta þeim sóttvarnaráðstöfunum sem öðrum komufarþegum er gert að sæta.
gudni@mbl.is