Verjandi mulla Krekar í Mehamn-málið

Brynjar Meling ásamt skjólstæðingi sínum, Najmuddin Faraj Ahmad, öðru nafni …
Brynjar Meling ásamt skjólstæðingi sínum, Najmuddin Faraj Ahmad, öðru nafni mulla Krekar, við ein margra réttarhalda yfir Krekar í Noregi árabilið 2003 til 2020 þegar hann var loksins framseldur til Ítalíu. AFP

Norski lögmaðurinn Brynjar Meling, sem hvað þekktastur er fyrir að annast málsvörn Najmuddin Faraj Ahmad, öðru nafni mulla Krekar, eins af leiðtogum kúrdísku hryðjuverkasamtakanna Ansar al-Islam, í máli sem gekk meira og minna í 17 ár í Noregi, mun verða verjandanum Bjørn Gulstad til fulltingis þegar Mehamn-málið kemur fyrir Lögmannsrétt Hálogalands í Tromsø 22. febrúar.

Gulstad starfar á lögmannsstofu Meling í Ósló og telja þeir samstarfsmennirnir 13 ára dóminn yfir Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem féll að morgni 20. október, rangan miðað við málavexti, kringumstæður og meintan ásetning Gunnars Jóhanns.

Lá ekki á skoðun sinni

Lá Gulstad ekki á skoðun sinni varðandi þetta í samtali við mbl.is að kvöldi dómsdags og sagði þá: „Hann [Gunnar Jóhann] er hins veg­ar ósam­mála mati dóms­ins á að þeirri óvissu, sem um þetta atriði [hvort skot hafi hugsanlega hlaupið af án þess að tekið hafi verið í gikk haglabyssunnar] rík­ir, sé beitt hon­um í óhag.

Það sem einnig veg­ur hér þungt er að um­bjóðandi minn tók aldrei meðvitaða ákvörðun um að fara inn í þess­ar aðstæður hefði hann á þeim tíma sjálf­ur talið að hálf­bróðir hans hlyti bana af.

Bjørn Andre Gulstad og Gunnar Jóhann Gunnarsson ræða við mbl.is …
Bjørn Andre Gulstad og Gunnar Jóhann Gunnarsson ræða við mbl.is í fangelsinu í Vadsø við aðalmeðferð málsins í september. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Rétt­in­um tókst ekki að sýna fram á, sem þó telst eðli­legt í saka­mála­réttar­fari, að um­bjóðandi minn hefði tekið þá ákvörðun að fremja verknaðinn hefði hann grunað eða vitað að hátt­semi hans hefði and­lát í för með sér.“

Norðurnorsku miðlarnir iFinnmark og Finnmarken, sá fyrri í læstri áskrift og hinn dagblað, greina frá aðkomu Meling og hafa eftir Gulstad, að eining ríki með þeim Meling um að lagabókstafnum hafi verið ranglega beitt við dómsuppkvaðninguna fyrir Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í haust sem leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert